Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Forsætisráðherra Finnlands ávarp rafrænan landsfund

Mynd: RÚV / RÚV
Logi Már Einarsson var endurkjörinn formaður Samfylkingarinnar í dag með níutíu og sex prósentum atkvæða. Forsætisráðherra Finnlands ávarpaði fundinn og sagði fólk líta til jafnaðarmanna um djarfar lausnir í faraldrinum.

Félagar í Samfylkingunni ræstu tölvur sínar síðdegis og mættu þannig rafrænt á landsfund Samfylkingarinnar. Vegna sóttvarnaaðgerða var formaðurinn í fárra manna hópi í sal á Hilton Nordica í Reykjavík. Yfir þúsund manns af öllu landinu skráðu sig á þennan rafræna fund. 

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands er jafnframt formaður systurflokks Samfylkingarinnar í Finnlandi, Jafnaðarmannaflokksins. 

„Fólk gerir nú ráð fyrir ákveðnum og djörfum lausnum frá okkur jafnaðarfólki til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar og verja heilbrigðiskerfið okkar,“ sagði Sanna í ávarpi sínu.

Núverandi kjörtímabili Loga Einarssonar formanns lauk núna, hann bauð sig fram til endurkjörs og var einn í kjöri. Fimmtíu og fimm prósent af ríflega þúsund landsfundarfulltrúum greiddu atkvæði.

„Logi Einarsson er nú réttkjörinn formaður Samfylkingarinnar með 96,45% greiddra atkvæða,“ tilkynnti Katrín Theodórsdóttir, formaður kjörnefndar.

Þetta var nú frekar afdráttarlaus kosning hjá þeim sem kusu, hverju þakkarðu það?

„Ja, það voru að vísu ekki margir keppinautar en engu að síður er ég mjög þakklátur fyrir þetta traust. Ég held að þetta snúist um það að flokksmenn hafi trú á því ég og við í grasrótinni, forystu flokksins, þingflokknum, getum komið málum á dagskrá og unnið sigur í næstu kosningum,“ segir Logi.

Á morgun lýkur kosningu um varaformann Samfylkingarinnar. Varaformaðurinn Heiða Björg Hilmisdóttir er í framboði ásamt Helgu Völu Helgadóttur alþingismanni.