Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Tókust á um sóttvarnaráðstafanir á Alþingi

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra flutti Alþingi skýrslu um sóttvarnaráðstafanir stjórnvalda, rétt fyrir hádegi í dag, þar sem fram kom að ráðum sóttvarnalæknis hefði verið fylgt í einu og öllu.

 

Skýrslan er hluti af nýju fyrirkomulagi, að ráðherra flytji þinginu munnlega skýrslu um ákvarðanir stjórnvalda sem tengjast faraldrinum. Sitt sýnist hverjum og einhverjir þingmenn krefjast ríkari aðkomu þingsins. Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði til dæmis að Alþingi ætti ekki bara að taka þátt í umræðu heldur að koma að ákvörðunum.  

Svandís sagðist á Alþingi ekki hafa séð ástæðu til annars en að fylgja tilmælum sóttvarnalæknis í einu og öllu og að ríkisstjórnin hefði staðið einhuga að þeirri nálgun. Hún sagði að það þýddi þó ekki að ráðum væri fylgt án nauðsynlegrar gagnrýni og umræðu. Tekið hefði verið tillit til ýmissa annarra sjónarmiða en sóttvarna, en að slík mál hefðu alltaf verið leyst með þéttu samráði. 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagði að það vantaði mikið upp á að Alþingi væri hluti af umræðunni um sóttvarnir. Hann gagnrýndi að Alþingi hefði ekki komið nóg að ákvörðunum og væri ekki betur upplýst um það hversu mikið ákvörðunum væri útvistað til Þríeykisins. 

Í andsvari sínu sagðist heilbrigðisráðherra ekki vita til þess að þingflokkur Miðflokksins hefði óskað eftir umræðu um þessi mál síðan þau komust á dagskrá í lok febrúar.

Eftir hádegi verða greidd atkvæði að lokinni annarri umræðu um frumvörp um framhald á lokunarstyrkjum og tekjufallsstyrki sem tekið hafa þó nokkrum breytingum í efnahags- og viðskiptanefnd.