Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þungaðar konur gætu veikst verr en aðrar

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarþjónustu Landspítalans, sagði á upplýsingafundi Almannavarna í dag að þungaðar konur væru ekki líklegri til að smitast en aðrar konur, en að þær gætu veikst verr en jafnaldrar sínir. Um 50 barnshafandi konur á Íslandi hafa greinst með COVID-19.

Smitast ekki frekar en gætu veikst verr

Hulda sagði að það væri ekki meiri hætta á því að þungaðar konur smituðust af COVID-19 en aðrar konur og að barnshafandi konur væru í þeim aldurshópi þar sem alvarlegar sýkingar væru sjaldgæfari. Þó væru uppi vísbendingar um að þungaðar konur sem sýktust af kórónuveirunnni gætu orðið veikari en jafnöldrur þeirra sem sýktust. Því sagði hún ástæðu fyrir barnshafandi konur til að fara varlega og gæta vel að sýkingarvörnum. 

Áhættuþættir sömu og fyrir aðra

Áhættuþættirnir fyrir þungaðar konur eru þeir sömu og fyrir aðra, sagði Hulda. Hættan á því að veikjast alvarlega eykst með hækkandi aldri og undirliggjandi sjúkdómum eins og háþrýstingi, sykursýki og ofþyngd.

Ekki merki um að COVID-19 hafi áhrif á fóstur

Hulda sagði að ekki væru merki um að COVID-19 sýking móður ýtti undir hættuna á fósturláti. Þá sagði hún raunar engar vísbendingar um að sýkingin hefði áhrif á barnið, við fæðingu væri barnið nánast aldrei sýkt, jafnvel þótt móðirin væri enn veik við fæðingu.

Ekki miklar breytingar á fæðingarþjónustu vegna nýrra takmarkana

Ekki hafa orðið miklar breytingar á þjónustu við barnshafandi konur og aðstandendur eftir að nýjar sóttvarnareglur tóku gildi í síðustu viku. Hulda sagði að í vor hafi á tímabili verið í gildi strangar reglur á fæðingardeildinni en að á þeim hafi verið slakað í maí og síðan þá hafi í raun lítið breyst.

Það eina sem hefði breyst í vikunni væri að nú hefði verið takmörkuð viðvera aðstandenda í sónarskoðun. Hulda segir að það sé gert til þess bæði að vernda skjólstæðinga og starfsfólk.

 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV