Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Mjög gott að þessi dagur er búinn“

05.11.2020 - 22:06
Mynd: RÚV - Úlla Árdal / RÚV - Úlla Árdal
Á áttunda hundrað fjár var fargað á bænum Stóru-Ökrum 1 í Skagafirði í dag eins og fréttastofa greindi frá í hádegisfréttum, en þann 22. október var riða staðfest á bænum og ljóst að skera þyrfti allt fé niður.

Tæpri viku síðar var svo tilkynnt um smit á þremur öðrum bæjum í Skagafirði og sagt að lóga þyrfti um 2.400 fjár. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær það fé verður skorið. Farið verður með fullorðna féð í sorpeyðingarstöðina Kölku, en lömbin verða urðuð.

„Við komum hingað á milli átta og níu og byrjuðum þá í okkar aðgerðum. Svo vorum við bara að klára núna á milli fimm og sex og þetta gekk bara nokkuð eftir plani,“ sagði Jón Kolbeinn Jónsson héraðsdýralæknir í kvöldfréttum sjónvarps.

Var þetta erfiður dagur?

„Já, það er alltaf erfitt að aflífa dýr. Svona dagar eru bæði sorglegir og margt sem að þarf að ganga upp. Það er bara gott þegar svona dögum lýkur án áfalla. Þetta er náttúrulega viss léttir líka að vera búin með niðurskurð því þetta hefur mikil áhrif á bændurna sem búa hérna og með sauðfé og svo bara samfélagið í heild. Þannig að já það er bara mjög gott að þessi dagur er búinn.“