Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Minkar á Íslandi verða skimaðir fyrir kórónuveiru

05.11.2020 - 15:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Matvælastofnun ætlar að hefja skimun fyrir kórónuveiru á minkabúum landsins. Það er vegna frétta af stökkbreyttu afbrigði veirunnar sem greindust í minkum í Danmörku og barst þaðan í fólk. Ekki er þó grunur um að kórónuveirusmit hafi komið upp á minkabúum hér á landi.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun er áréttað að minkabændum hafi í sumar verið gert að herða sóttvarnir á búunum og tilkynna grun um veikindi í dýrunum til stofnunarinnar. Engar tilkynningar hafa borist.

Í gær greindu dönsk stjórnvöld frá því að aflífa ætti alla minka í landinu vegna kórónuveirusmita eftir að stökkbreytt afbrigði greindist sem barst úr dýrum í fólk. Það skapar hættu á því að bóluefni sem nú er í vinnslu gegn COVID-19 virki ekki á stökkbreytt afbrigði veirunnar.

Níu minkabú eru starfrækt á Íslandi, á Norðurlandi vestra og Suðurlandi, með alls 15 þúsund eldislæðum. Ef smit greinist á búunum verða frekari aðgerðir skoðaðar í samráði við heilbrigðisyfirvöld, segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Nýjar og áhugaverðar upplýsingar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður út í stökkbreyttu tegundina í minkum í Danmörku á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann sagði það nýjar og áhugaverðar upplýsingar.

„Ég er búinn að vera í sambandi við yfirdýralækni hér. Dýralæknar á Norðurlöndunum munu funda um þetta á næstunni. Ég held að þýðingin á þessu eigi eftir að koma í ljós. Kannski þarf maður að hafa einhverjar áhyggjur en ég læt þær bíða þar til nánari fréttir og upplýsingar koma um þetta,“ sagði Þórólfur.