Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Mikilvægt að fá nemendur aftur í skólana

05.11.2020 - 19:15
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Yfirkennari Verslunarskóla Íslands segir mikilvægt að framhaldsskólar fái undanþágu frá tveggja metra reglunni svo hægt verði að fá nemendur aftur í skólana fyrir lok þessa mánaðar.

Nemendur Verslunarskólans fengu að þreyta próf í íþróttasal skólans í dag. Það heyrir til undantekninga að nemendur fái að koma í skólann en þá einungis í litlum hópum. Þeir þurfa síðan að yfirgefa bygginguna strax að prófi loknu. Flestir framhaldsskólar landsins eru nánast mannlausir þessa dagana út af sóttvarnaaðgerðum. Nemendur stunda fjarnám og allt félagsstarf liggur meira og minna niðri.

Þorkell H. Diego yfirkennari Verslunarskólans segir að fjarkennsla hafi gengið vel í haust en þó sé betra að hafa nemendur í skólanum sjálfum.

„Yfirleitt hefði maður haldið að það væri kvíðvænlegt fyrir nemendur að koma í próf í skólanum. En núna er það bara gleðistund. Þá sjáum við hvað það skiptir miklu máli að koma í skólann og hitta aðra,“ segir Þorkell.

Hann segir mikilvægt að framhaldsskólar fái undanþágu frá tveggja metra reglunni svo nemendur geti mætt í skólann síðustu vikurnar í nóvember. Hann segir að ástandið hafi bitnað hvað verst á fyrsta árs nemum sem hafi varla fengið tækifæri til að kynnast skólanum og sínum samnemendum.

„Nemendur sem venjulega eru á fjórðu hæð, fyrsta árs nemarnir okkar, þeir hafa aldrei komið þangað. Þeir hafa ekki séð þær aðstæður sem við myndum venjulega bjóða þeim upp á,“ segir Þorkell.

Una Margrét Lyngdal er á síðasti ári í Menntaskólanum í Reykjavík og formaður skólafélagsins. Hún hefur verið fjarnámi í nánast allt haust og hennar skóladagur fer því að mestu leyti fram fyrir framan tölvuskjáinn heima. Hún segir erfitt fyrir marga að geta ekki mætt í skólann eins og venjulega.

„Ég held að allir séu orðnir mjög þreyttir á ástandinu og væru svolítið til í að mæta í skólann,“ segir Una Margrét. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV