Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Englendingar nutu síðasta kvöldsins fyrir útgöngubann

05.11.2020 - 06:47
epa08799516 A bar staffer packs away tables and chairs at a bar in Soho before lockdown in London, Britain, 04 November 2020. The UK government have announced that the UK will begin its second national lockdown from 05 November. This comes as news reports state that COVID-19 related deaths in Britain have increased by 46 percent in less than a week.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Almenningur á Englandi notaði tækifærið í gær til að skreppa á krána, í verslunarleiðangur eða í klippingu. Algert útgöngubann gekk í gildi á miðnætti sem nær yfir 56 milljónir manna.

Fólki er gert að halda sig almennt heima nema það þurfi að halda til vinnu eða skóla. Þeim sem geta er ætlað að vinna heima.

Öllum verslunum skal lokað nema þeim sem selja nauðsynlegan varning, sömuleiðis skulu krár og veitingahús vera lokuð en bjóða má upp á heimsendingu eða að viðskiptavinir sæki máltíðir.

Barir og krár voru víða þéttsetin þetta síðasta kvöld fyrir útgöngubannið. Í Soho-hverfinu í Lundúnum hafði götum verið lokað svo að gestir gætu verið utandyra að njóta veiga og samvista við vini.

Í samtölum við AP fréttastofuna lýstu kráargestir því hversu mjög þeir ætluðu að njóta kvöldsins en einhverjir lýstu áhyggjum vegna vina og ættingja sem starfa í veitingageiranum.

Skoðanakannanir sýna almennt fylgi við aðgerðir ríkisstjórnar Boris Johnson en áhyggjur hafa vaxið vegna mögulegra áhrifa útgöngubannsins á efnahagslífið og ekki síður á andlega heilsu fólks.

Fylgið telst vera eitthvað minna en þegar gripið var til samskonar aðgerða í vor. Skólum verður þó haldið opnum að þessu sinni. Brot á reglunum geta varðað þungum fésektum.

Joe Curran kráareigandi í Soho býst við að hann verði í mörg ár að jafna sig fjárhagslega. Útgöngubannið nú muni kosta þúsundir punda ofan á þær þúsundir sem fyrri aðgerðir hafi kostað.

Boris Johnson forsætisráðherra kveðst bjartsýnn á að hægt verði að slaka á klónni 2. desember eins og ráð er gert fyrir. Þá verður hægt að opna fyrirtæki og verslanir í tíma fyrir jól.