Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Aldrei meira inngrip í einkalíf fólks í Íslandssögunni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður utanríkismálanefndar Alþingis sagði á Alþingi í dag að þær sóttvarnaaðgerðir sem kveðið væri á um í reglugerð sem gilti til 17. nóvember væru svo víðtækar og mikið inngrip í friðhelgi einkalífsins að annað eins þekktist ekki í Íslandssögunni allri.

Hún lagði áherslu á að Alþingi væri engin málstofa þar sem ræða ætti málin, þingið ætti að taka ákvarðanir.

„Ég vil í þessu samhengi benda á að þingið er miklu meira en málstofa í þeim skilningi sem hæstvirtur ráðherra virðist vera að leggja í það hér að það sé bara hér til þess að taka mál til umræðu. Þingið hefur hlutverki að gegna, þingið er löggjafinn hér í landinu æðsta stofnun stjórnskipunar Íslands og hefur bæði löggjafar og eftirlitshlutverki að gegna gagnvart framkvæmdavaldinu,“ sagði Sigríður.

Því sé mikilvægt að sóttvanaraðgerðir komi ekki bara hér til umræðu á Alþingi heldur einnig líka til ákvörðunar, til dæmis reglugerðin sem nú er í gildi um samkomutakmarkanir.

„Það má held ég fullyrða að í þessari reglugerð er kveðið á um aðgerðir svo áhrifamiklar og víðtækar og inngrip inní friðhelgi einkalífsins og persónuréttindi manna að annað eins hefur ekki þekkst ekki bara í lýðveldissögunni heldur jafnvel í Íslandssögunni allri,“ sagði Sigríður Á Andersen.