Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vilja að fleiri geti fengið tekjufallsstyrki

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tekjufallsstyrkur fyrirtækja vegna COVID-19 verður rýmri en lagt var upp með í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra ef breytingartillögur efnahags- og viðskiptanefndar ná fram að ganga. Nefndin leggur til, í samráði við ráðuneytið, að styrkirnir verði ekki bundnir við fyrirtæki með þrjá eða færri starfsmenn heldur geti stærri fyrirtæki líka fengið styrki. Þeir verða þó mest greiddir vegna fimm stöðugilda starfsmanna.

Þessi breyting sem nefndin leggur til þýðir að öll fyrirtæki sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli geta sótt um tekjufallsstyrkina. Hins vegar er hámark hversu mikla styrki hvert og eitt fyrirtæki getur fengið. Fyrirtæki sem hefur misst 40 til 70 prósent tekna getur fengið fjórtán milljónir að hámarki en fyrirtæki sem hefur misst enn stærri hluta tekna sinna getur að hámarki fengið 17,5 milljónir í styrk. Þá eru settar skorður við því hversu mikið fé tengd fyrirtæki geta fengið úr tekjufallsstyrkjum, framhaldi lokunarstyrkja og ferðagjöfinni. Tengd fyrirtæki geta að hámarki fengið 120 milljónir króna samanlagt úr þessum úrræðum.

40 prósenta viðmið í stað 50 prósenta

Nefndin leggur einnig til að miðað verði við 40 prósenta tekjufall, sem skilyrði fyrir veitingu styrksins, en ekki 50 prósent eins og gert var í frumvarpinu. Nefndin leggur líka til að hægt sé að veita tekjufallsstyrki til 31. október en ekki septemberloka eins og gert var í frumvarpinu. Það er vegna þess að hertar sóttvarnaaðgerðir hafa staðið lengur en fyrirséð var við ritun frumvarpsins. Að lokum leggur nefndin til að skatturinn birti upplýsingar um hvaða fyrirtæki hafa þegið tekjufallsstyrk, en að einyrkjar verði undanþegnir þeirri birtingu.

Þá vill nefndin girða fyrir að fyrri stuðningur úr ríkissjóði vegna COVID-19 komi í veg fyrir að fyrirtæki og einyrkjar geti nýtt sér tekjufallsstyrk. Þannig eigi lokunarstyrkur ekki að hafa tekjufallsstyrkinn af fyrirtæki ef hann þokar tekjutapi undir 40 prósentin.

Önnur umræða um tekjufallsstyrki er á dagskrá þingfundar sem hefst klukkan þrjú í dag.