Hverfulir þekkingarþræðir á þjóðlistasafninu

Mynd: LÍ / LÍ

Hverfulir þekkingarþræðir á þjóðlistasafninu

04.11.2020 - 10:32

Höfundar

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir fjallar um sýninguna Listþræði sem nú stendur yfir í Listasafni Íslands. Sýningin var sett upp í tilefni af aldarafmæli Ásgerðar Búadóttur og tilefnið notað til að horfa sérstaklega til vefnaðar og þráðlistar í íslenskri samtímalist.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Það var kærkomið tækifæri að fá að bregða inn fæti á Listasafn Íslands á vindasömum og heldur nöprum laugardegi, nú þegar flest söfn hafa lokað í samkomubanni. Á safninu kennir ýmissa grasa, en fimm ólíkar sýningar eru yfirstandandi í safninu um þessar mundir. Í þessum pistli ætla ég að rýna í eina þessara sýninga, Listþræði, sem var opnuð í september og stendur fram í janúar á næsta ári. Reyndar hafði ég upphaflega ætlað mér að fjalla líka um sýninguna Solastalgiu, stóra innsetningu í gagnauknum veruleika (augmented reality á ensku), en hvort sem það var vegna óljósra leiðbeininga eða tæknivandamála þá náði ég ekki að upplifa verkið til fulls, og því verður umfjöllunin að bíða þangað til ég hef gert aðra atrennu að verkinu.

En þá að Listþráðum. Það var eitthvað við yfirbragð og umgjörð sýningarinnar sem gerði það að verkum að ég fann sterkt fyrir því að ég væri stödd á þjóðlistasafni, nokkuð sem fékk mig til að velta fyrir mér hlutverki Listasafns Íslands miðað við önnur myndlistarsöfn í landinu. Listasafn Íslands er eitt af fáum söfnum sem eru í ríkiseign, svokallað höfuðsafni á sviði myndlistar, sem setur það í flokk með Þjóðminjasafni Íslands og Náttúruminjasafni Íslands, hinum tveimur höfuðsöfnunum í landinu. Sem slíkt ber safnið ríkari ábyrgð en önnur söfn þegar kemur að því safna íslenskri myndlist, varðveita hana, skrásetja, rannsaka og miðla til almennings. Sýningin Listþræðir talar beint inn í þetta hlutverk og tekst vel að uppfylla það, þótt ganga hefði mátt lengra í vissum atriðum sem ég kem að hér á eftir.  

Frá handavinnu yfir í samtímalist

Listþræðir er yfirgripsmikil sýning um sögu og þróun textíllistar hér á landi. Textíllistin er marglaga listgrein með langa sögu og fjölda ólíkra aðferða, en eftir gróskumesta tímabilið á 8. og 9. áratugnum má segja að þráðlistin hafi gengið í endurnýjun lífdaga með auknum áhuga yngri listamanna á þræðinum sem efniviði á síðustu árum. Verkin á sýningunni eru um 60 talsins og spanna 60 ára tímabil, það elsta frá árinu 1958 og þau yngstu frá 2018. Það sem stendur upp úr við skoðun sýningarinnar er kvenleg nærvera, mýkt, ótrúleg færni og vald yfir bæði aðferðum og efnum, og sterk efniskennd. Þarna eru verk sem byggjast á handverki fyrri tíma og viðhalda þannig menningarlegri arfleifð í samtímanum, verk sem stúdera eiginleika þráðarins og leika sér með form, flæði, fléttur og hrynjandi, og verk sem fara út fyrir vefstólinn og sprengja upp ramma í eiginlegri sem óeiginlegri merkinu. Þá er feminískt sjónarhorn viðvarandi í gegnum alla sýninguna, þar sem gagnrýninn lestur á stöðu kynjanna sem og stöðu náttúrunnar eru endurtekin stef í gegnum sýninguna.

Sýningin er sett upp í tilefni aldar afmælis Ásgerðar Búadóttur, frumkvöðuls á sviði nútíma veflistar hér á landi. Verk Ásgerðar eru rauður þráður í gegnum sýninguna og greina má áhugavert samtal milli þeirra og annarra verka, hvort sem þau eru eftir samtíðakonur hennar eða nýrri verk. Framlag Ásgerðar til íslenskrar myndlistar var mikið, en fyrir það var hún sæmd fálkaorðunni árið 1993. Hún ruddi brautina í að koma veflistinni á stall með viðurkenndri myndlist hér á landi á áttunda áratugnum, sem fram að því hafði verið álitin nytjalist eða skraut, og tilheyrði fyrst og fremst heimilinu frekar en hinu opinbera sviði listanna. Þetta gerist um svipað leyti og uppgangur kvennahreyfingarinnar er að eiga sér stað, en mörg verkanna eru einmitt innlegg í þá baráttu og þannig rammar sýningin sögu textíllistarinnar inn í stærra samhengi samfélagsþróunar.

Efniskennd

Sýningin situr vel í sýningarsölunum tveimur á eftir hæð safnsins, sem standa andspænis hvor öðrum og kallast á yfir ganginn. Þannig myndast til dæmis skemmtilegt samtal milli inngangsverkanna tveggja, Mosabarð Nínu Gautadóttur frá 1976, og Right Brain eftir Hrafnhildi Arnardóttur Shoplifter frá 2005, sem er jafnframt nýjasta verkið í safneigninni. Sýningin er litrík, lærdómsrík og afar áferðarfalleg, og það fer mikið fyrir efnisleika og efniskennd í henni. Maður fær tilfinningu fyrir vinnu handanna, tímanum sem fer í að gera hvert og eitt verk, nákvæmninni, færninni og þolinmæðinni, svo mikið að mann langar til að teygja út hönd og þreifa á verkunum, jafnvel þefa af þeim. Þarna eru tvívíð verk sem stökkva fram eins og skúlptúrar af veggjum; verk sem unnin eru úr ull, bómull, hrosshárum, mannshárum, fiskigarni, plasti og vír; abstrakt verk, fígúratív verk og vídjóverk; hekluð verk, ofin verk, útsaumuð verk, krosssaumsverk, stafrænn vefnaður, umhverfisverk og stærri innsetningar.

Mörg verkanna eru eftir konur fæddar fyrir 1950 og sumar hverjar hafa ekki fengið viðeigandi sess í listasögunni hingað til, en sérstaklega gaman var að sjá verk eftir Kristínu Jónsdóttur frá Munkaþverá, Hildi Hákonardóttur og auðvitað Ásgerði sjálfa, en einnig var gaman að uppgötva verk eldri listakvenna og upplifa þau í samhengi þessarar sýningar, eins og t.d. verk Oddnýjar E. Magnúsdóttur, Vigdísar Kristjánsdóttur, Hólmfríðar Árnadóttur, Guðrúnar Marinósdóttur og Þorbjargar Þórðardóttur. Örfá verk karlkyns listamanna á sýningunni veita svo áhugavert mótvægi við yfirgnæfandi fjölda kvenlistamanna, og vekja upp spurningar um kynjaskiptingu og kynhlutverk, ekki bara í samfélaginu almennt heldur einnig í listheiminum sjálfum.

Hverful þekkingarsköpun

Flest verkanna eru í eigu Listasafns Íslands, en einnig hefur verið leitað fanga í safnkost annarra safna sem og einkasöfn til stoppa í göt safneignarinnar. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu safnsins um safneignina eru einungis 30 verk af 13.500 í flokki textílverka, sem segir sína sögu um stöðu textíllistarinnar meðal annarra listgreina. Það er ljóst að töluverð rannsóknarvinna liggur að baki sýningarinnar, sem endurspeglast í kerfisbundinni og kynjaðri söguskoðun, texta á merkimiðum, sem og ígrundaðri uppröðun verkanna í sýningarsölunum sjálfum.

Verkin eru sett bæði í innra samhengi myndlistarsögunnar sem og ytra samhengi breiðari samfélagsþróunar. Það sem ég hins vegar sakna, og finnst tilheyra svona metnaðarfullri og sögulega mikilvægri sýningu, er sýningarskrá eða útgáfa af einhverju tagi, þar sem þetta innra og ytra samhengi er saumað betur saman við verkin sjálf. Á vef safnsins má reyndar hlaða niður pdf-skjali, en það er eingöngu samsafn allra merkimiðanna sem fylgja hverju verki og er án mynda, en frekari innrömmun, inngangur eða samhengi kemur þar ekki fram. Þar kemur heldur ekki fram nafn sýningarstjórans, sem á hrós skilið fyrir sína vinnu, og ekki fann ég það heldur á heimasíðu safnsins. Með veglegri útgáfu hefði verið hægt að miðla betur þeirri miklu rannsóknarvinnu, sem liggur að baki þessarar annars vel heppnuðu sýningar, og þannig stæði þekkingarsköpunin eftir fyrir framtíðar rannsakendur, listamenn og myndlistarunnendur.

Í staðinn sitjum við uppi með rannsóknarafrakstur, sýningu í þessu tilfelli, sem einungis er aðgengilegur í takmarkaðan tíma og þannig er hætt við þekkingin glatist eftir að hún er tekin niður. Hvort sem hér er um að kenna ónægu fjármagni eða rangri forgangsröðun skal ég ekki segja, en þetta vandamál er alls ekki bundið við hvorki við þessa sýningu né þetta tiltekna safn. Það er alltof algengt að lokahnykkinn í rannsóknarferlinu vanti í safnastarfi hér á landi, þ.e. einhverskonar útgáfu, vefsíðu eða annað varanlegt form, sem varðveitir þekkingarsköpunina sem svo sannarlega felst í sýningarstjórnunarferlinu.

Tengdar fréttir

Pistlar

Brýn sýning um norræna normalíseringu hins kynjaða

Pistlar

Vannýtt tækifæri á metnaðarfullri sýningu

Pistlar

Smáspekileg tengsl heimspeki og hönnunar