Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Foreldrar varist að verða leiðinlegir

Mynd: RÚV / RÚV
Anna Steinsen, fyrirlesari og tómstunda- og félagsmálafræðingur, hvetur foreldra til að gæta þess að skipta sér ekki of mikið af börnum sínum á tímum heimavinnu og fjarnáms. Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í dag.

„Við sem erum að vinna heima erum kannski með framhaldsskólanema fyrir framan okkur allan daginn. Þau væru annars í skólanum og við í vinnunni. Þá er maður kannski farinn að skipta sér af þeim endalaust: „Hvað ertu að borða? Ætlarðu að fá þér þetta? Afhverju ferðu ekki út að hlaupa? Þegar ég var yngri gerðum við þetta svona og það var ekki sjónvarp á fimmtudögum, og svo framvegis.“,“ sagði hún. Foreldrar þyrftu að gæta að eigin geðheilsu og ekki síður að passa sig á því að verða ekki leiðinlegir.

Anna sagði að rannsóknir hefðu sýnt að þau börn sem hefðu haft sterkt og gott félagsnet áður en fyrsta bylgja faraldursins skall á hér á landi hefðu komið vel út úr henni. Hins vegar hefðu þau börn sem stæðu höllum fæti í félagslífi fyrir farið verr út úr ástandinu. 

Anna sagði að ein besta leiðin fyrir foreldra til að hjálpa börnum sem væru einmana væri að fara með þeim út að leika og leyfa börnunum að ráða för. „Ekki gera endilega það sem ykkur finnst skemmtilegast, heldur leyfið krökkunum að ráða,“ sagði hún.