Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vonskuveður og gul viðvörun um allt austanvert landið

03.11.2020 - 00:33
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir allt austanvert landið fyrir nóttina og morgundaginn, og á miðhálendinu er hún þegar í gildi. Ekkert ferðaveður verður á Austfjörðum frá óttu í nótt fram undir náttmál annað kvöld.

Á Austurlandi, alveg frá Langanesi suður í Álftafjörð, tekur viðvörunin gildi klukkan þrjú í nótt, þar er spá norðvestan hríð og stormi eða roki, með mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, allt upp í 45 metra á sekúndu.

Samgöngutruflanir eru líklegar á öllu svæðinu og ekkert ferðaveður á Austfjörðum á meðan viðvörunin er í gildi þar, fram til átta annað kvöld.

Á Suðausturlandi gildir viðvörunin frá sex í fyrramálið. Þar verður þá norðvestan stormur og mjög hviðótt austan öræfa, einkum í Suðursveit og austur að Höfn, þar sem búast má við hviðum upp á 35 - 40 metra á sekúndu. Á hálendinu geisar þegar vestan og norðvestan hvassviðri eða stormur og mun geisa áfram fram eftir degi, með hvössum vindhviðum allt upp í 40 metra á sekúndu, einkum norðaustantil.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV