Fjögurra ára stúlku, Ayda Gezgin, var í morgun bjargað úr rústum húss sem hrundi í Izmir í Tyrklandi á föstudag þegar öflugur jarðskjálfti reið yfir vestanvert landið.
Ayda hafði verið föst í rústunum níutíu og eina klukkustund þegar henni var bjargað. Að sögn tyrkneskra fjölmiðla var hún þegar í stað flutt á sjúkrahús til aðhlynningar. Í gær var þriggja ára stúlku bjargað úr rústum fjölbýlishúss í Izmir.
Yfirvöld greindu frá því í morgun að eitt hundrað hefðu fundist látnir eftir skjálftann í Tyrklandi, hátt í eitt þúsund hefðu meiðst og væru nærri 150 enn á sjúkrahúsi.