Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hefur gaman af pólitík og vill vera varaformaður áfram

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, hyggst halda áfram í stjórnmálum og gefa kost á sér til áframhaldandi varaformennsku í flokknum. Þetta kom fram í Kastljósi í gærkvöld.

Í þættinum, sem horfa má á í heild sinni í spilaranum á rúv.is, ræddi Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir við Lilju um nýja reglugerð heilbrigðisráðherra um sóttvarnaaðgerðir og takmarkanir ýmsar í skólum landsins. Undir lok þáttarins vék Jóhanna að framtíð ráðherrans í pólitík og spurði hana hvort hún hygðst halda áfram í henni. Lilja játti því og sagðist afar þakklát fyrir það traust sem henni hefði verið sýnt á þeim vettvangi.

„Ég er mjög ánægð með að vera varaformaður Framsóknarflokksins og ég er gríðarlega sátt við flokksfélagana og hvernig þeir hafa treyst mér fyrir þessu umfangsmikla embætti,“ sagði Lilja. „Já, ég ætla að halda áfram. Ég hef mjög gaman af því að vera í stjórnmálum, miklu meira gaman af því en ég bjóst við upphaflega.“