Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Frakkar felldu yfir 50 vígamenn íslamista í Malí

03.11.2020 - 04:45
epa02663381 A handout photograph issued by the French Ministry of Defense 31 March 2011 shows a Mirage 2000D (R) and a Rafale fighter jet in flight on 30 March 2011. The Mirage 2000D and Rafale have been used by the French Air Force to enforce the Libyan
 Mynd: EPA - ECPAD/SIRPA AIR/HANDOUT
Frönsk stjórnvöld greindu frá því í gærkvöld að franski herinn hefði fellt yfir 50 vígamenn úr röðum vopnaðra sveita íslamista í Malí á dögunum. Varnarmálaráðherra Frakklands, Florence Parly, upplýsti þetta eftir fund með malískum yfirvöldum í gær. Sagði hún franskar herþotur hafa gert árás á bækistöðvar íslamista með tengsl við Al Kaída síðstliðinn föstudag, nærri landamærunum að Búrkína Fasó og Níger.

Franski herinn hefur lagt malíska hernum lið í baráttunni við uppreisnarsveitir íslamista í landinu um nokkurra ára skeið, með misjöfnum árangri.

Árásin á föstudag hófst á jörðu niðri. Að sögn ráðherrans var blásið til aðgerðarinnar þegar eftirlitsdróni náði myndum af „mjög stórri“ mótorhjólalest nærri mörkum ríkjanna þriggja. Þegar mótorhjólamennirnir urðu drónans varir leituðu þeir skjóls í aðliggjandi skóglendi og voru tvær franskar Mirage-orrustuþotur þá sendar á vettvang, með fyrrgreindum afleiðingum.

Fullyrða að árás hafi verið yfirvofandi

Talsmaður franska hersins í Malí, Frederic Barbry, fullyrti á fréttamannafundi að hinir felldu hafi verið „í þann mund að gera árás [á bækistöð hersins] í héraðinu,“ og sagði sprengiefni og sprengjuvesti hafa fundist á vettvangi. Þá upplýsti hann að önnur og stærri hernaðaraðgerð gegn vígasveitum Íslamska ríkisins á þessum slóðum væri þegar hafin, með þátttöku allt að 3.000 hermanna. Sú aðgerð hófst fyrir um það bil mánuði, sagði Barbry, og verður greint frá árangri hennar innan fárra daga.