Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Eiga fátt annað sameiginlegt en að vera á áttræðisaldri

Mynd:  / 
Verði Trump endurkjörinn verður hann 22. forseti Bandaríkjanna sem situr tvö kjörtímabil. Lúti Trump lægra haldi verður hann þrettándi Bandaríkjaforsetinn sem ekki fær umboð kjósenda til áframhaldandi starfa. Sigri Biden verður hann fimmti fyrrum varaforsetinn sem er kjörinn forseti.

Kjósendur í Bandaríkjunum hafa nú val milli þess að tryggja Donald John Trump, 45. forseta Bandaríkjanna, annað kjörtímabil í embætti, eða að velja Joseph Robinette Biden Jr., Joe Biden, sem 46. forseta Bandaríkjanna. 

Verði Biden kjörinn verður hann langelsti maðurinn til að taka við embættinu. Hann verður 78 ára í janúar á næsta ári þegar forseti næsta kjörtímabils sver embættiseiðinn. 

Það er reyndar það sama uppi á teningnum ef Trump sver embættiseiðinn í annað sinn í janúar, þá verður hann 74 ára. Metið átti hann sjálfur, en hann varð fyrir fjórum árum elsti maðurinn til að sverja embættiseiðinn fram að því, þá sjötugur. 

Nokkru munar því á aldri þeirra Trump og Biden, og þeirra yngstu sem gegnt hafa embættinu. Sá yngsti er Theodore Roosevelt, sem var 42 ára þegar hann varð forseti eftir að William McKinley var myrtur. Yngsti maðurinn sem hefur verið kjörinn forseti til þessa er John F. Kennedy, þá 43 ára.

Skilnaðir og hvíta tjaldið

Donald Trump var umsvifamikill í fasteignaviðskiptum áður en hann varð forseti, hafði sömuleiðis haslað sér völl á sjónvarpsskjánum í þáttunum The Apprentice, auk þess sem honum hefur brugðið fyrir í ýmsum kvikmyndum. 
Hann er ekki eini forsetinn með reynslu af hvíta tjaldinu, repúblikaninn Ronald Reagan var kvikmyndastjarna áður en hann varð forseti Bandaríkjanna árið 1981. 

Þeir Reagan og Trump eiga fleira sameiginlegt. Til þessa eru þeir einu forsetarnir sem hafa gengið í gegnum hjónaskilnað, einu fráskildu mennirnir sem tekið hafa við embættinu. 

Ekki fyrsti varaforsetinn sem vill verða forseti

Joe Biden sat í áratugi sem öldungadeildarþingmaður Demókrata í Delaware áður en hann varð varaforseti Bandaríkjanna. Nái hann kjöri verður hann hins vegar ekki fyrsti varaforsetinn til að gegna embætti forseta. Átta varaforsetar hafa tekið við forsetaembættinu eftir fráfall sitjandi forseta.

Einn varaforseti hefur tekið við embættinu eftir afsögn forvera síns, það er Gerald Ford sem hljóp í skarðið fyrir Richard Nixon á sínum tíma. 

Fimm varaforsetar hafa verið kjörnir forsetar Bandaríkjanna, þeirra á meðal George Bush eldri, sem var varaforseti Ronalds Reagan og  Richard Nixon sem var varaforseti Dwight D. Eisenhower. Hinir eru John Adams, Thomas Jefferson og Martin Van Buren.

Verði Trump endurkjörinn verður hann 22. forseti Bandaríkjanna sem situr tvö kjörtímabil. Hljóti hann hins vegar ekki kosningu er hann þrettándi Bandaríkjaforsetinn sem ekki fær umboð kjósenda til áframhaldandi starfa. 

Þriðja konan sem vill verða varaforseti

Kynjahlutföllin á kjörseðlinum eru jafnari en oft áður, þó þau séu sannarlega ekki hnífjöfn. Kamala Harris, varaforsetaefni Demókrata, er þriðja kvenkyns varaforsetaefni stóru flokkanna tveggja.

Fyrst var Geraldine Ferraro sem bauð sig fram með Walter Mondale fyrir Demókrataflokkinn árið 1984. Þá var það George Bush eldri sem varð varaforseti í annað sinn í stjórnartíð Ronalds Reagan.

Árið 2008 bauð Sarah Palin fram krafta sína sem varaforsetaefni Repúblikanaflokksins og John McCain. Barack Obama bar hins vegar sigur úr býtum í þeim forsetakosningum, með varaforsetann Joe Biden sér við hlið. 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV