Eins og fyrir aðra stórviðburði í íslensku sjónvarpi, sem búast má við að þjóðin fylgist gaumgæfilega með, tökum við á RÚV núll saman nokkur bráðnauðsynleg og misnauðsynleg atriði sem bæta upplifunina og gera hálfgerðan leik úr áhorfinu.
Sveifluríkið þitt
Hvort sem þú hyggst horfa á kosningavökuna í einrúmi, með öðru heimilisfólki eða jafnvel í myndsímtali með vinahópnum þá er full ástæða til að hefja kvöldið á að velja sér sveifluríki til að „halda með.“ Eins og kemur fram í þessari ítarlegu fréttaskýringu RÚV eru það sveifluríkin sem öll athyglin beinist að, venju samkvæmt.
Sveifluríkin að þessu sinni eru eftirfarandi: Texas, Arizona, Iowa, Ohio, Pennsylvanía, Norður-Karólína, Georgía og Flórída.
Það er rík ástæða til að fagna rækilega í hvert sinn sem sveifluríkið þitt er nefnt á nafn, svipað og við Íslendingar gerum á tónleikum þegar erlendir tónlistarmenn segja „Thank you, Reykjavík/Kópavogur/Iceland.“ Þetta er jú fylkið sem þú valdir til að standa með í kvöld og það þýðir ekkert að skipta þó tölurnar sem berast upp úr kjörkössunum séu ekki endilega í samræmi við skoðanir þínar. Heilbrigður rígur á milli áhorfenda um sveifluríki er líka til þess að kynda skemmtilega upp í hlutunum, en passið þó að lætin fari ekki úr böndunum. Við erum jú ekki stödd á kosningafundi Trump.
Frambjóðendurnir
Það þarf auðvitað að velja sér frambjóðanda. Kosningar eru jú keppni í vinsældum og einhver þarf að standa uppi sem sigurvegari. Kannski þessi myndbönd frá frambjóðendunum geti hjálpað þér að taka ákvörðun: