Allt sem þú þarft fyrir kosningavökuna í kvöld

epa08794215 A member of the crowd waits to hear President Donald Trump speak at the Wilkes-Barre Scranton International Airport in Scranton, Pennsylvania, USA, 02 November 2020. Americans will vote on Election Day to choose between re-electing Donald J. Trump or electing Joe Biden as the 46th President of the United States to serve from 2021 through 2024.  EPA-EFE/TRACIE VAN AUKEN
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Allt sem þú þarft fyrir kosningavökuna í kvöld

03.11.2020 - 15:04
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu í dag og velja sér forseta. Kosningavaka RÚV hefst klukkan 23:40 en henni stýra Bogi Ágústsson og Birta Björnsdóttir fréttamenn. Kosningar eru auðvitað grafalvarlegt mál, en það þýðir ekki að í kvöld sé ekki ærlegt tilefni til að gera kvöldið skemmtilegt og hafa stemninguna góða.

Eins og fyrir aðra stórviðburði í íslensku sjónvarpi, sem búast má við að þjóðin fylgist gaumgæfilega með, tökum við á RÚV núll saman nokkur bráðnauðsynleg og misnauðsynleg atriði sem bæta upplifunina og gera hálfgerðan leik úr áhorfinu. 

Sveifluríkið þitt

Hvort sem þú hyggst horfa á kosningavökuna í einrúmi, með öðru heimilisfólki eða jafnvel í myndsímtali með vinahópnum þá er full ástæða til að hefja kvöldið á að velja sér sveifluríki til að „halda með.“ Eins og kemur fram í þessari ítarlegu fréttaskýringu RÚV eru það sveifluríkin sem öll athyglin beinist að, venju samkvæmt. 

Sveifluríkin að þessu sinni eru eftirfarandi: Texas, Arizona, Iowa, Ohio, Pennsylvanía, Norður-Karólína, Georgía og Flórída. 

Það er rík ástæða til að fagna rækilega í hvert sinn sem sveifluríkið þitt er nefnt á nafn, svipað og við Íslendingar gerum á tónleikum þegar erlendir tónlistarmenn segja „Thank you, Reykjavík/Kópavogur/Iceland.“ Þetta er jú fylkið sem þú valdir til að standa með í kvöld og það þýðir ekkert að skipta þó tölurnar sem berast upp úr kjörkössunum séu ekki endilega í samræmi við skoðanir þínar. Heilbrigður rígur á milli áhorfenda um sveifluríki er líka til þess að kynda skemmtilega upp í hlutunum, en passið þó að lætin fari ekki úr böndunum. Við erum jú ekki stödd á kosningafundi Trump. 

Frambjóðendurnir

Það þarf auðvitað að velja sér frambjóðanda. Kosningar eru jú keppni í vinsældum og einhver þarf að standa uppi sem sigurvegari. Kannski þessi myndbönd frá frambjóðendunum geti hjálpað þér að taka ákvörðun: 

Veitingarnar

Það má búast við nokkuð langri nótt og því er bráðnauðsynlegt að hafa eitthvað gott að borða. Kosningavaka í Bandaríkjunum er kjörið tækifæri til að gerast sannur „föðurlandsvinur“ eins og Bandaríkjamönnum er tíðrætt um. Þó ekki fyrir þitt eigið föðurland, heldur er gaman að prófa sig áfram með þann mat sem nýtur vinsælda í Bandaríkjunum í dag.

Kosninganótt er ekki ósvipaður sjónvarpsviðburður og SuperBowl svo sterkir vængir (hvort sem þeir eru gerðir úr kjúklingi eða blómkáli), litlir maískólfar, eða ostborgarar koma sterkir inn. Þá er ekki úr vegi að heiðra menningu allra þeirra Bandaríkjamanna sem Donald Trump úthúðaði fyrir síðustu kosningar, og ætlaði að láta byggja vegg til að koma í veg fyrir að myndi fjölga, og bjóða upp á mexíkóska veislu.

Tæplega sautján prósent bandarísku þjóðarinnar eru af rómönskum uppruna og fólk ættað frá Mexíkó, sem er langstærsti hópurinn, hefur eðli málsins samkvæmt litað matarmenningu Bandaríkjanna ríkulega. Í samræmi við þetta er kvöldið í kvöld tilvalið fyrir quesadillas, nachos, hvaða tegund sem er af tacos og sparið ekki jalapeño piparinn. Þeir sem eru í sérstaklega góðu skapi geta fengið sér Margarítu, og nei, við erum ekki að tala um pizzuna. 

Afþreyingin í fyrirrúmi

Eins og á öllum kosningavökum er viðbúið að það þurfi að bíða. Niðurstöðurnar skýra sig alls ekki sjálfar og allt tekur þetta tíma. Þá er gott að vera með hina ýmsu skemmtun reiðubúna til að stytta sér stundirnar. 

Til að byrja með mælum við að sjálfsögðu með spilinu Monopoly en það hefur Trump spilað alla sína ævi og þótt einkar lunkinn við. Árið 1989 gaf Donald svo út spil í sínu nafni sem minnti á hið klassíska Monopoly. Spilið byggði á ferli Trump en markmið þess var að sjálfsögðu að kaupa og selja eignir og knésetja andstæðinginn með peningum. 

Viðtökur spilsins voru reyndar ekki eins og búist var við, en 800 þúsund eintök seldust. Þá var spilið endurútgefið eftir að Trump hafði slegið í gegn í raunveruleikaþáttunum The Apprentice. 

Mynd með færslu
 Mynd: Tim Murphy - motherjones.com
Trump-spilið

Það er jafnframt gott að vera reiðubúinn með lagalista til að grípa í þegar biðin dregst á langinn. Þessi lagalisti frá Spotify er ágætur til að byggja á fyrir alvöru karlakarla-rokk sem er svo einkennandi fyrir ákveðinn kima bandarískrar tónlistar. 

Á frétta- og afþreyingarvefnum Buzzfeed má jafnframt finna ótal spurningaleiki og persónuleikapróf sem byggja á frambjóðendunum tveiur, kosningunum og sérstaklega sitjandi forseta. Það er hreint út sagt hægt að gleyma sér í misgáfulegum spurningaleikjum af þessu tagi á meðan beðið er eftir tölum úr hinum ýmsu fylkjum Bandaríkjanna. 

Hér er til dæmis eitt. 

Á spurningasíðunni Sporcle er ógrynni af prófum um sögu forsetaembættisins og sögu Bandaríkjanna sem virkilega reyna á þekkingu þeirra sem þau þreyta. Við mælum með að velja sér eitt og reyna að svara eftir bestu getu án þess að nota Google. 

Svo má líka bara standa aðeins upp og hrista á sér bossann við bossinn, sjálfan Bruce Springsteen. Það kemst enginn í hálfkvisti við hann, er það nokkuð?