Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

100 misstu vinnuna á hverjum degi í október

Mynd með færslu
 Mynd: Vinnumálastofnun
Um 3.000 manns bættust á skrár Vinnumálastofnunar yfir atvinnulausa í október. Það jafngildir því að um 100 hafi misst starf sitt á hverjum degi. Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir að þetta sé í takt við spár stofnunarinnar. Búast megi við svipaðri þróun út árið.

„Því miður eru okkar spár að ganga eftir og við búumst við að þetta verði svipað fram að áramótum, vonandi ekki lengur,“ segir Unnur. „Þá yrðum við komin upp í 11-12% atvinnuleysi, sem er það sem við höfum þegar spáð.“

Unnur segir að ekki hafi verið tekið saman í hvaða starfsgreinum fólkið var. Þá liggi heldur ekki fyrir kynjahlutföll, búseta þess eða aldur, en það verður birt í samantekt Vinnumálastofnunar sem er að vænta síðar í mánuðinum.

Vinnumálastofnun bárust tilkynningar um tvær hópuppsagnir i október þar sem samtals 71 missti vinnuna. Önnur uppsögnin var hjá fyrirtæki í veitingageiranum, hin í verslun. Þetta voru færri hópuppsagnir en verið hefur undanfarna mánuði.

Hún segir að nú sé atvinnuleysi um 10% og ómögulegt sé að segja til um hvort þessi þróun gæti haldið áfram eftir áramót. „Það eru svo margir utanaaðkomandi þættir sem spila inn í eins og ástandið er núna.“