Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þurfa að komast í hefilbekk, sög og suðu til að læra

Mynd með færslu
 Mynd:
Hertar sóttvarnareglur í skólum hafa áhrif á viðveru nemenda í iðnnámi sem ekki eiga gott með að stunda nám sitt í fjarnámi. Færri mega koma saman í hverjum áfanga. Þó útsjónarsemi nemenda og kennara sé mikil þá þurfa þeir að komast í góða aðstöðu og viðeigandi verkfæri.

Tækniskólinn er einn fjölmennasti framhaldsskóli landsins. Þar eru um 3000 nemendur. Aðeins hluta nemenda er kennt í staðnámi og allt bóknám hefur meira og minna farið fram í fjarnámi í allt haust.  Hildur Ingvarsdóttir er skólameistari Tækniskólans. Hún segir að áhrifin séu lítil varðandi bóknámskennslu í skólanum.

„Hins vegar hefur það áhrif í sumum verknámsáföngum þar sem við þurfum að endurraða nemendum af því að núna mega þeir bara vera í rauninni níu sem tilheyra hverjum hópi plús svo kennarinn. En þessi tala var áður 30.“ segir Hildur.

Færri tímar en engar frestanir eða niðurfellingar

Flækjustigið segir hún að sé mest í málm- og rafiðngreinum. Hún reiknar þó ekki með fresta þurfi útskriftum eða að fella þurfi niður áfanga vegna aðgerðanna.

„En í einhverjum tilvikum getur þeim tímum sem nemendur fá að koma í hús fækkað. Og svo hefur þetta þau áhrif, þetta ástand núna að við erum ekki að fara að taka inn bóknámsáfanga í hús eins og við vorum að vonast til að geta gert.“ segir Hildur.

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV

Gæti reynst erfitt að komast á samning

Nemendur í iðngreinum þurfa að komast á samning í sinni iðngrein á atvinnumarkaði til að fá starfsréttindi. Hildur segir að það hafi gengið ágætlega að komast á samning á þessu ári, en það fylgi árferði á atvinnumarkaði hvernig það gangi fyrir iðnnema að fá samning. Því sé útlitið ekki eins bjart fyrir árið 2021 í hennar huga.

„Þú getur ekki unnið neitt í samningnum á meðan að allt er lokað. Til dæmis nemendur í hársnyrtigreinum hafa misst fjöldamargar vikur úr sínum samningum núna í vor og aftur í haust. Svo eigum við eftir að sjá hvaða áhrif efnahagsástandið hefur á það fyrir nemendur að komast að sem eiga að byrja á samningi í janúar eða næsta sumar. Þetta hefur gengið ágætlega árið 2020 en við höfum smá áhyggjur af því að það muni reynast erfiðara árið 2021. Af því að það er mikið undir atvinnulífinu komið hvort að það er nóg að gera í byggingariðnaðinum, hvort að það er pláss á hársnyrtistofum o.s.frv. “ segir Hildur.

Minnki frekar við sig en að hætta alveg

Þá hafi aðgerðirnar áhrif á líðan nemenda og upplifun þeirra af því að vera í framhaldsskóla.

„Þetta er náttúrulega ekki gott að vera eins og við höfum verið í haust. Sumir þrífast ágætlega í fjarnámi en sumir eiga mjög erfitt með það. Sérstaklega fyrir nemendur sem eru að mæta lítið til okkar, eru jafnvel ekki í neinu verklegu, þau geta orðið mjög einangruð og það á við heilt yfir flesta óháð skólum að þessu fylgir töluerð einangrun og það þarf mikinn aga að fara á fætur og mæta í tíma og vera við tölvuna allan daginn og skila verkefnum. Svo fylgja alls konar aðrar áhyggjur varðandi Covid og hvað er að gerast, og fæ ég vinnu næsta sumar, eða kemst ég á samning? Þetta tekur á og við höfum miklar áhyggjur af nemendum en erum að reyna að gera okkar besta til að sinna þeim á þann hátt sem við getum“ segir Hildur.

Hún hvetur nemendur til að minnka frekar við sig frekar en að hætta alfarið námi ef þeir finna fyrir auknu álagi og streitu.  Þrátt fyrir allt sé fólk mjög útsjónarsamt að ljúka tilætluðum verkefnum utan veggja skólans. 

„En svo stendur alltaf eftir þetta að þú þarft hefilbekkinn og sögina og suðubásinn sem þú ert ekki með heima hjá þér. En heilt yfir má segja að ég sé nokkuð bjartsýn. Fyrst fannst okkur þessi tala tíu alveg óhugsandi, en mér sýnist að okkur sé að takast að koma þessu svona þokkalega saman, betur en ég þorði að vona.“ segir Hildur.

Fréttin hefur verið uppfærð