Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Níu rúma COVID-deild opnuð á Landakoti

02.11.2020 - 15:07
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
COVID-deild með níu einbýlum var opnuð á Landakoti á laugardaginn. Henni er ætlað að bregðast við mikilli þörf fyrir innlagnir fólks með sjúkdóminn.

Greint er frá opnun nýju deildarinnar á vef Landspítala.

Þar segir að tekist hafi að manna 20 stöðugildi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða sem starfa á deildinni, en læknisþjónustu og annarri stoðþjónustu sé sinnt með hefðbundnum hætti.

Á vef spítalans segir að ekkert nýtt smit tengt hópsmitinu af Landakoti hafi komið upp undanfarna tvo daga.

Í síðustu viku var Landakoti breytt í bráðasjúkrahús til að geta sinnt þeim sem þar voru með sjúkdóminn. Þá var teymi frá lyflækningaþjónustunni sem sinnir sjúklingum frá COVID göngudeildinni flutt frá Fossvogi yfir í Landakot ásamt búnaði sem þarf til að veita bráðaþjónustu.