Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hópuppsögnum fækkar

Mynd með færslu
 Mynd:
Vinnumálastofnun hafa ekki borist fleiri tilkynningar um hópuppsagnir um nýliðin mánaðamót fyrir utan þær tvær sem stofnuninni bárust í síðustu viku þar sem samtals 71 missti vinnuna. Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir að ef um hefði verið að ræða fleiri hópuppsagnir, þá væri þegar búið að tilkynna stofnuninni um þær. Þetta eru talsvert færri hópuppsagnir en hafa verið síðustu mánuði.

„Þar sem við höfum ekki fengið fleiri tilkynningar, held ég að það sé óhætt að draga þá ályktun að þetta hafi verið einu hópuppsagnirnar um mánaðamótin október-nóvember,“ segir Unnur. „Við hefðum væntanlega fengið tilkynningar í síðasta lagi á laugardaginn.“

Hópuppsagnirnar tvær, sem Vinnumálastofnun var tilkynnt um fyrir helgi, voru annars vegar í fyrirtæki í veitingageiranum og hins vegar í fyrirtæki í verslunarrekstri.

Um mánaðamótin september - október var Vinnumálastofnun tilkynnt um níu hópuppsagnir þar sem 324  manns misstu störf sín. Átta af þessum hópuppsögnum voru í ferðaþjónustu og ein í mannvirkjagerð.

Um mánaðamótin ágúst - september misstu 284 vinnu sína í fjórum hópuppsögnum og um mánaðamótin þar áður var alls 381 starfsmanni sagt upp í hópuppsögnum hjá fjórum fyrirtækjum.