
Félag grunnskólakennara andvígt undanþágum yngri bekkja
Í yfirlýsingunni segir að stjórn félagins taki undir það með menntamálaráðherra, að „„stærsta samfélagsverkefnið" í faraldrinum sem nú gengur yfir sé að „tryggja menntun" barna." Innleiðing almennra sóttvarnareglna í grunnskólum sé liður í því, og þannig hafi átt að ná niður samfélagssmiti með samstilltu átaki í stuttan tíma.
Eitt og annað í reglugerðinni grafi hins vegar alvarlega undan því markmiði, einkum sú ákvörðun að leyfa nemendum í 1. - 4. bekk grunnskóla að vera allt að fimmtíu í hóp án þess að gerð sé krafa um tveggja metra fjarlægðarbil eða grímunotkun.
Ekki í samræmi við almenna reglugerð heilbrigðisráðherra
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir sagði í samtali við fréttastofu að með þessu sé stjórn félagsins fyrst og fremst að vísa til þess, að verið sé að fara í mjög hertar sóttvarnaaðgerðir um allt land með nýjum reglum, sem eiga að gilda næstu tvær vikurnar.
„Þetta samstillta átak sem er sett af stað í samfélaginu, það er tilgreint í sóttvarnareglum sem voru gefnar út á föstudaginn, og við lítum svo á að með því að taka einn hóp út fyrir sviga og hafa aðrar reglur fyrir fyrsta til fjórða bekk, þá náist ekki þetta markmið sem að er stefnt," segir Þorgerður.
Efast ekki um vísindin en vilja samræmi
Sóttvarnalæknir og fleiri sérfræðingar hafa ítrekað bent á að yngri börn sú mun ólíklegri til að hvort tveggja smita og smitast – og jafnvel veikjast – af COVID-19 en þau sem eldri eru. Þorgerður segir ályktun stjórnarinnar ekki til marks um að hún véfengi þau vísindi.
„Nei, við erum ekki sérfræðingar í þessum fræðum. Hins vegar lítum við svo á að reglugerðin og tilmælin sem voru send til allra á föstudaginn hafi verið gerð af þeim færustu sérfræðingum sem við höfum yfir að búa og þar er sérstaklega tekið fram að það giltu sömu reglur um alla þá sem eru fæddir fyrir 2015.“
Fer stjórn félagsins fram á ráðherrar endurskoði þessar undaþágur með það í huga að sóttvarnareglur grunnskólum verði byggðar á sömu forsendum og annars staðar. „Það getur aldrei verið réttlætanlegt að gera minni kröfur til sóttvarna barna en annarra þjóðfélagsþegna, þvert á móti ber okkur að verja þau framar öllum öðrum," segir í ályktun stjórnarinnar.
Ályktun stjórnar Félags grunnskólakennara
Stjórn Félags grunnskólakennara tekur undir með menntamálaráðherra að „stærsta samfélagsverkefnið" í faraldrinum sem nú gengur yfir sé að „tryggja menntun" barna.
Liður í því markmiði var að innleiða almennar sóttvarnarreglur í grunnskólanum. Þannig átti með samstilltu átaki í stuttan tíma að ná niður samfélagssmiti sem sett hefur þúsundir í sóttkví í grunnskólanum.
Sú vinna sem nú er verið að kynna í formi reglugerðar grefur alvarlega undan þessu markmiði. Þar má nefna að fjórir árgangar grunnskólans eru teknir undan sóttvarnarreglum um tveggja metra fjarlægðarbil og leyfi gefið fyrir allt að fimmtíu í hóp.
Stjórn Félags grunnskólakennara fer fram á að menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra endurskoði undanþágur frá sóttvarnarreglum í grunnskólum þannig að sóttvarnarreglur í grunnskólum verði byggðar á sömu forsendum og annars staðar í þjóðfélaginu.
Það getur aldrei verið réttlætanlegt að gera minni kröfur til sóttvarna barna en annarra þjóðfélagsþegna, þvert á móti ber okkur að verja þau framar öllum öðrum.