Að minnsta kosti 25 féllu eða særðust í árás á háskólann í Kabúl í Afganistan í dag. Þrír menn voru að verki, að sögn talsmanns innanríkisráðuneytisins. Einn sprengdi sig í loft upp og tveir félagar hans réðust þá inn í skólann og létu skothríðina dynja á fólki. Eftir nokkurra klukkustunda umsátur skutu öryggisverðir árásarmennina til bana.