Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hólfaskiptingar og grímuskylda í grunnskólum

01.11.2020 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn - rúv
Hólfaskiptingar verða teknar upp að nýju í grunnskólum og fjöldi barna í hverjum tíma verður takmarkaður við 25 í eldri bekkjum og fimmtíu í yngstu aldurshópunum. Menntamálaráðherra vonast til þess að skólastarf raskist sem minnst þrátt fyrir hertar sóttvarnaraðgerðir.

 

Reglugerð heilbrigðisráðherra um takmarkanir í skólastarfi út af hertum sóttvarnaraðgerðum verður birt í dag. Ekki er gert ráð fyrir því að starf leikskóla raskist en takmarkanir gætu haft áhrif á eldri bekki grunnskóla, frá fimmta upp í sjöunda bekk og á unglingastigi.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir að með hólfaskiptingu megi tryggja að færri þurfi að fara í sóttkví ef smit kemur upp.

„Á yngstu stigunum verðum við með fimmtíu barna hólf en á eldri stigunum þá verður 25 barna hólf og tveggja metra reglan núna þegar við erum að fara í þessar hertu aðgerðir.  Hins vegar er það svo að við þurfum að menntun til framtíðar því við vitum ekki hvenær við náum algjörlega tökum á kórónuveirunni. Við þurfum samt að hafa það alveg á hreinu að börnin okkar geti farið í skóla. Þannig að nú erum við að búa til þannig umgjörð að hún geti verið til lengri tíma þó að þetta séu mjög harðar aðgerðir. En svo viljum við þróa þetta þannig að jafnvel þó að veiran komi aftur inn í samfélagið að menntun sé tryggð,“ segir Lilja Alfreðsdóttir.

Nemendur í 5. bekk og upp úr þurfa að vera með andlitsgrímur á sameiginlegum svæðum innan skólabyggingarinnar en ekki í kennslustund. Engin grímuskylda er hjá yngri nemendum. 

„Við erum auðvitað opin fyrir öllu því sem tryggir sóttvarnir svo að við getum haldið menntakerfinu okkar gangandi,“ segir Lilja.

Leik- og grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu verða lokaðir á morgun til að gefa skólastjórnendum og kennurum tíma til að skipuleggja skólastarfið.

Lilja segir að til standi að veita þeim skólum aðstoð sem ekki geta boðið upp á hólfaskiptingu.

„Við þurfum að auka rými og við þurfum að fá fleiri inn á vettvanginn til þess að aðstoða skólakerfið okkar til þess að komast í gegnum þessa áskorun,“ segir Lilja. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV