Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fauci segir harða tíma framundan án harðra viðbragða

epa08378500 US President Donald J. Trump (L) and Anthony Fauci, Director of the National Institute of Allergy and Infectious Diseases, are joined by members of the Coronavirus Task Force to deliver remarks on the COVID-19 pandemic in the James S. Brady Press Briefing Room of the White House in Washington, DC, USA, 22 April 2020.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS / POOL
Donald Trump og Anthony Fauci á fundi með fréttamönnum í Hvíta húsinu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Anthony Fauci yfirmaður ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna setur harðlega ofan í við ríkisstjórn Donalds Trump vegna viðbragða hennar við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Í viðtali við Fauci sem Washington Post birti í dag segir hann að harðir tímar væru fram undan ef ekki væri gripið til skjótra aðgerða í heilbrigðismálum. „Staðan er ekki góð, hún gæti eiginlega varla verið mikið verri,“ segir Fauci.

Bandarísk sjúkrahús séu undir miklu álagi og ekki bæti úr skák að fjöldi fólks gæti ekki að smitvörnum. Nú sé tekið að kólna víða og haustflensan hafi hafið innreið sína. Á föstudaginn var greindust 98 þúsund ný tilfelli kórónuveirusmita í Bandaríkjunum og yfir 230 þúsund eru látin af völdum faraldursins.

Fauci veitti Trump lengi vel upplýsingar nær daglega um framvindu faraldursins og viðbrögð við honum. Nú segir hann forsetann ekki lengur sækjast eftir upplýsingum frá honum. Í viðtalinu segir Fauci að Biden hins vegar taki faraldurinn alvarlega.

Judd Deere talsmaður Hvíta hússins brást ókvæða við orðum Faucis. „Það er engan veginn við hæfi að maður sem hefur verið helsti ráðgjafi forsetans í smitvörnum, maður sem hefur lofað framgöngu forsetans í faraldrinum, skuli hefja pólítískan skollaleik þremur dögum fyrir kosningar,“ segir í yfirlýsingu Deeres.

Deere átaldi Fauci fyrir að gagnrýna forsetann í fjölmiðlum og koma upp um pólítískar skoðanir sínar með því að hampa andstæðingi hans. Donald Trump sjálfur hefur lengi fullyrt að veiran væri á undanhaldi vestra og jafnvel gefið í skyn að læknar gerðu of mikið úr útbreiðslu hennar.

Í liðnum mánuði kallaði Trump Fauci „stórslys“ sem gæti farið enn verr yrði hann rekinn.