Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verknám á undir högg að sækja í námsvali unglinga

31.10.2020 - 09:20
Mynd: Dagur Gunnarsson / Dagur Gunnarsson
Af hverju velja unglingar í 10. bekk að loknu grunnskólanámi frekar bóknám en verknám. Um þetta var fjallað í Þjóðarspegli Háskóla Íslands. Soffía Valdimarsdóttir aðjúnkt í náms- og starfsráðgjöf stýrði þar málstofu um náms- og starfsval unglinga. 

Skólaval frekar en náms-/starfsval

Hún segir að rannsóknir hafi sýnt að 10. bekkingar velji út frá ríkjandi samfélagslegu viðhorfi þegar þeir velja sér framhaldsnám. Vinir og foreldrar hafa mikil áhrif og síðan framhaldsskólinn sjálfur. Unglingarnir velja sér skóla, eru ekki beint að velta fyrir sér námsbrautinni, og skólarnir skipa mismunandi virðingarsess í huga unglinganna. Sumir skólar eru vinsælli en aðrir og þær vinsældir geta sveiflast á milli ára eða árabils.

Brotthvarf úr námi algengara hér á landi 

Hún segir að námsráðgjöf og rétt val í skóla skipti miklu máli vegna þess að brotthvarf úr framhaldsskóla er umfangsmeira hér á landi en annars staðar. Brotthvarfið er dýrt fyrir samfélagið þegar skólar eru fullir af nemendum sem vilja ekki vera þar. En það er ekki síður dýrt fyrir nemandann, því það felst mikið skipbrot í því að hætta eða gefast upp.

Rétt val grundvöllur hamingju ef vel tekst til 

Spegillinn ræddi við Soffíu um skort á fyrirmyndum í verkgreinum fyrir unglinga í dægurmenningunni, áherslu grunnskólans á bóknámið o.fl. Hún segir að fyrst og síðast snúist þetta um að koma þeim skilaboðum til ungs fólks að því vegni betur ef það er á sínu áhugasviði, vinni í því sem styrkleiki þess sé mestur. Vinnan sé það stór hluti af lífinu að það sé mikilvægt að líða ekki illa í vinnu. Þegar vel tekst til þá sé rétt starfs- og námsval farvegur blómstrunar og hamingju.  

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV