Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Nýstárlegar leiðir í fögnuði Íslandsmeistaranna

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Nýstárlegar leiðir í fögnuði Íslandsmeistaranna

31.10.2020 - 09:32
Íslandsmeistarar í knattspyrnu voru krýndir í gær við heldur óvenjulegar aðstæður. Valur vann úrvalsdeild karla nokkuð örugglega og þá varð Breiðablik Íslandsmeistarar kvenna eftir sigur á Val í leik sem reyndist verða lokaleikur tímabilsins.

Valsarar voru með 8 stiga forskot þegar stjórn Knattspyrnusambands Íslands ákvað í gær að blása mótin af. Valur leiddi Íslandsmótið lengstan hluta mótsins og gat fátt komið í veg fyrir að liðið myndi lyfta þeim stóra í mótslok. Patrick Pedersen endaði markahæstur í liðinu með 15 mörk.

Valsmenn fögnuðu titlinum vel og innilega í gærkvöldi í Fjósinu sem er félagsheimili þeirra og rétt fyrir utan aðalvöll liðsins, einhverjir settu þó spurningarmerki við fjöldann í fagnaðarlátum liðsins sem stenst vissulega ekki samkomutakmarkanir hvorki í gær né í dag. Meðal þeirra sem kom auga á þetta var Arnar Daði Arnarsson þjálfari karlaliðs Gróttu í handbolta og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir leikmaður KR í knattspyrnu sem féll um deild í gær.

Breiðablik sem varð Íslandsmeistari með sigri á Val í lokaleik tímabilsins fagnaði titlinum í gegnum fjarfundarbúnað þetta árið. Breiðablik náði góðri forystu á Val á tímabilinu en þau lið voru í algjörum sérflokki, eftir tap á heimavelli gegn Selfoss minnkaði bilið á milli liðanna og úr varð úrslitaleikur á Hlíðarenda sem Breiðablik vann 1-0. Agla María Albertsdóttir endaði markahæst í liðinu með 14 mörk.

Margir leikmanna liðsins sem og hluti þjálfarateymisins eru enn í sóttkví þar sem íslenska kvennalandsliðið er nýkomið heim úr verkefni í Svíþjóð. Ingibjörg Auður Guðmundsdóttir, formaður meistaraflokksráðs kvenna, deildi skemmtilegri færslu á Twitter í gær þar sem leikmenn voru saman komnir á Zoom að gleðjast yfir góðum árangri.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV