Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hópastarfsemi leggst af en félagsmiðstöðvar enn opnar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
„Nýju reglurnar hafa aðallega áhrif á starfið með eldri borgurum,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við fréttastofu.

Öll skipulögð hópastarfsemi í félagsmiðstöðvum fyrir eldri borgara leggst af vegna hertra samkomutakmarkana en þó hefur verið ákveðið að hafa félagsmiðstöðvarnar áfram opnar svo fólk geti komið þangað og fengið sér kaffi. Þar verður grímuskylda og tveggja metra fjarlægð milli fólks. 

Regína segir að vegna nýju takmarkananna verði boðið upp á heimsendingar á mat fyrir eldri borgara í auknum mæli, enda verði hætt að bjóða upp á mat í þjónustuíbúðakjörnum og í félagsmiðstöðvum eins og verið hefur. 

Þá hafi nýja reglugerðin áhrif á starf eins og Virkni og vinnu, hæfingarstöðvar þar sem fólk með fötlun fær vinnu. „Við þurfum að skipta starfseminni niður í minni hópa til að geta virt tíu manna fjöldatakmörk,“ segir Regína. 

Þá sé nú verið að skoða stöðuna á þjónustumiðstöðvum borgarinnar sem eru fimm. Regína segir að þar hafi að undanförnu verið í gildi grímuskylda en nú þurfi að breyta starfseminni vegna tíu manna fjöldatakmarka.