Fyrirtækjum að blæða út

Mynd með færslu
 Mynd:
Mörgum fyrirtækjum er að blæða út og atvinnulífið þolir núverandi ástand ekki mikið lengur. Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Staðan verði afleit takist ekki að koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi á næstu mánuðum.

 

Fleiri fyrirtæki geta sótt um styrki til að halda rekstrinum gangandi samkvæmt breyttum efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í gær.

Markmiðið er meðal annars að koma í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækja á meðan faraldurinn gengur yfir. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í fréttum sjónvarps að aðgerðirnar séu til marks um hversu erfið staðan sé orðin.

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins tekur undir þetta.

„Mörgum fyrirtækjum er að blæða út, atvinnuleysi er á sama tíma mjög mikið og er að aukast mjög hröðum skrefum. Það eru mánaðamót núna um helgina og því miður eru fjöldamargir sem eru að fá uppsagnarbréf um þessi mánaðamót. Við getum illa lifað við það að 25 til 30 þúsund manns verði án vinnu í byrjun næsta árs. Það er afleit staða,“ segir Halldór.

Hann vonast til þess að sóttvarnaraðgerðir skili árangri sem fyrst svo hægt verði að slaka á takmörkunum. Erfitt sé hins vegar að segja hvenær viðspyrnu verður náð.

„Ég held hins vegar að um leið og hagkerfið hrekkur í gang á nýjan leik þá eru allar forsendur fyrir því að við náum hér kröftugri viðspyrnu. Innviðir landsins eru sterkri og innviðir helstu útflutningsgreina eru mjög sterkir. Þannig að tíminn einn mun leiða í ljós hversu langan tíma þetta tekur en það er alveg ljóst sem þú bendir á að við þolum ekki mikið lengri tíma, því miður,“ segir Halldór Benjamín. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV