Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Takmarkanir hafa áhrif á eldri bekki grunnskóla

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skólahald gæti orðið fyrir raski vegna hólfaskiptingar í hertum samkomutakmörkunum, sérstaklega hjá elstu bekkjum grunnskóla. Ekki er búið að taka ákvörðun um grímuskyldu eða fjarnám í grunnskólum. Stefnt er að því að kynna sérstaka reglugerð um skólahald vegna hertra takmarkana um helgina.

25 manna takmörk í grunnskólum

Frá miðnætti miðast fjöldatakmörk almennt við 10 manns, í stað 20. Það á líka við um kennslustundir innan framhaldsskóla. En grunnskólar skulu takmarka fjölda barna við 25 í hverjum tíma. Börn í leikskólum verði hins vegar undanþegin tveggja metra reglunni og fjöldatakmörkunum.

Þýðir þetta þá fjarnám að einhverju leyti í grunnskólum? „Við erum að fara í hólfaskiptingu. Það er misjafnt hvernig skólarnir fara farið í útfærslu á þessu eins og við munum frá því í vor. En við leggjum áherslu á að menntun barnanna sé að leiðarljósi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra. Verið er að útfæra auknar sóttvarnir innan skólanna, nánari reglugerð um skólahald verður kynnt sem fyrst að höfðu samráði við skólana.

„Það verður aukin hólfun, meiri skipting milli hópa í skólnum og nándartakmarkanir. Auðvitað mun hafa einhver áhrif sérstaklega á eldri bekki í grunnskóla og framhaldsskóla,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fréttamannafundinum í dag. 

Ekki tekin ákvörðun um grímuskyldu eða tvo metra

Í reglugerð heilbrigðisráðherra eru einungis börn á leikskólaaldri undanþegin öllum reglum um fjöldatakmörkun og grímuskyldu, áður voru það börn bæði á leik og grunnskólaaldri. „Það sem við gerum um helgina er að vinna að reglugerðinni sem byggir á þessu minnisblaði. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um grímuskyldu fyrir yngstu skólastigin,“ segir Lilja jafnframt.

„Það hefur ekki veirð tekin ákvörðun um það nákvæmlega hvar tveggja metra reglan gildir. Það stendur í minnisblaðinu að tryggja eigi eins og hægt sé með hliðsjón af þroska mismunandi aldurshópa að nálægð sé yfir tvo metra og nú erum við að fara yfir það hvernig þessu verður framfylgt,“ segir hún.