Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Ríkisstjórnin er alltof svifasein“

30.10.2020 - 19:38
Mynd: RÚV / RÚV
„Ég er ánægður með öll skref sem stigin eru til að hjálpa þessum fyrirtækjum en það breytir því hins vegar ekki að ríkisstjórnin er alltof svifasein. Þetta er búið að blasa við í fleiri vikur og mánuði og fyrirtækin hafa þurft að þola þetta,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í dag til að koma til móts við fyrirtæki vegna kórónuveirufaraldursins.

Í breyttum efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar er lagt til að fleiri geti sótt um svokallaða tekjufallsstyrki til að bæta upp tap vegna minni tekna, og veita á viðspyrnustyrki í framhaldinu og fram á næsta ár. Þá hefur félagsmálaráðherra hafið undirbúning að framlengingu hlutabótaleiðarinnar. 

„Ef við tökum til dæmis hlutabótaleiðina sem virðist eiga að framlengja núna fram á vorið. Það er ekki nema mánuður síðan ríkisstjórnin hafnaði tillögu um það í þinginu. Ríkisstjórnin verður að hætta að stunda bara viðbragsstjórnmál og fara að horfa lengra fram í tímann,“ segir Logi.