Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Leggur til að grunnskólum verði lokað að hluta

30.10.2020 - 15:05
Mynd með færslu
 Mynd: Alma Ómarsdóttir - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur það til að grunnskólum landsins verði lokað að hluta þannig að miðað verði við að ekki fleiri en 25 nemendur verði saman á hverjum tíma.

Þetta kemur fram í minnisblaði hans til heilbrigðisráðherra varðandi tillögur að hertum sóttvarnaaðgerðum.

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, sagði á fréttamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag að skólar yrðu áfram opnir, en með takmörkunum. Það á eftir að útfæra frekar og reglugerð vegna takmarkana á skólahaldi verður kynnt um helgina, að höfðu samráði við skólana. 

Í minnisblaði Þórólfs segir að með því að loka grunnskólum að hluta þá þurfi jafnframt að tryggja eins og hægt er, með hliðsjón af þroska viðkomandi aldurshópa, að nálægð milli einstaklinga í grunnskólum verði yfir tveir metrar. Þá verði íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri ekki heimilt.

Börn í leikskólum verði hins vegar undanþegin tveggja metra reglunni og fjöldatakmörkunum.

Aldrei fleiri en hundrað í verslunum 

Varðandi framhalds- og háskóla þá leggur Þórólfur til tíu manna fjöldatakmarkanir eins og almennt gilda í samfélaginu. Í þeim tilfellum sem hvorki verður hægt að bjóða upp á fjarkennslu né tveggja metra nálægðartakmörk, verði notkun á andlitsgrímum gerð að skyldu. Þá verði ökunám og flugnám með kennara ekki heimilt. 

Í minnisblaðinu leggur Þórólfur jafnframt til að viðbragðsaðilar s.s. lögregla, slökkvilið, hjálparlið almannavarna og heilbrigðisstarfsfólk verði undanþegið fjöldatakmörkum við störf sín. Hið sama eigi við
Alþingi, dómstóla og ríkisstjórn.

Þá séu lyfja- og matvöruverslanir undanþegnar tíu manna takmörkunum, miðað við stærð, en aldrei fleiri en hundrað.