Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hertar reglur fyrir landið allt gilda frá miðnætti

30.10.2020 - 23:52
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Reglur um hertar sóttvarnaaðgerðir og takmarkanir sem heilbrigðisráðherra kynnti á föstudag að tillögu sóttvarnalæknis tóku gildi á miðnætti og gilda um allt land til 17. nóvember.
 • Andlitsgrímur skal nota í almenningssamgöngum, í verslunum og annarri þjónustu. Þetta á við alla sem eldri eru en fimm ára. Einnig skal nota andlitsgrímur þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðartakmörkun, svo sem í heilbrigðisþjónustu, leigubifreiðum og hópbifreiðum.
 • Um fjölda fólks á einum stað gildir sú meginregla að hvers kyns fjöldasamkomur eru bannaðar og ekki mega fleiri koma saman en 10. Á þessu eru þó undantekningar:
 • Allt að 30 mega sækja jarðarfarir - en þó aðeins tíu í erfidrykkju.
 • Allt að 50 mega vera samtímis í minni lyfja- og matvöruverslunum, og allt upp í 100 í þeim stærstu.
 • Í öðrum verslunum, veitingahúsum og söfnum mega að hámarki 10 vera inni í einu.  Vínveitingastaðir mega ekki vera opnir lengur en til kl. 21.00
 • Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar eru lokaðar
 • Leikhús, tónleikasalir og önnur sviðslistarými eru lokuð
 • Krár, skemmtistaðir og spilasalir verða lokaðir á meðan reglurnar gilda.
 • Íþróttastarf, jafnt innan dyra sem utan, er bannað.
 • Öll starfsemi - önnur en heilbrigðis- og umönnunarstarfsemi - sem krefst mikillar nándar er bönnuð. Hér er átt við starfsemi á borð við hársnyrtistofur, snyrtistofur og nuddstofur.
 • Ökunám, flugnám og annað nám þar sem 2 metra fjarlægðarmörkum verður ekki við komið er óheimilt.
 • Kennsla í framhalds- og háskólum takmarkist við 10 manna hópa, og áhersla lögð á fjarnám. 
 • Grímuskylda gildir hvar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.

Fjöldatakmarkanir gilda EKKI um

 • Börn fædd 2015 og síðar.
 • Heimili þar sem fleiri en 10 búa.
 • Almenningssamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug og störf viðbragðsaðila.
 • Störf ríkisstjórnar, ríkisráðs, Alþingis og dómstóla
 • Um leik- og  grunnskóla gilda aðrar fjöldatakmarkanir en þær almennu, og verða þær kynntar um helgina, auk þess sem íþróttastarf er ekki leyft í grunnskólum.

Bann við íþróttaiðkun nær EKKI til einstaklingsbundinna æfinga án snertingar, svo sem útihlaupa, hjólreiða, sjósunds og sambærilegrar hreyfingar. 

Undanþágur

 • Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkunum vegna félagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast. Þar undir fellur m.a. heilbrigðisstarfsemi og félagsþjónusta.
 • Ráðherra getur veitt undanþágu við banni frá íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði, til dæmis alþjóðlega keppnisleiki.

Auk þess er fólk minnt á að huga jafnan að sínum persónulegu sóttvörnum:

 • Virða 2 metra nálægðarmörk
 • Þvo og sótthreinsa hendur reglulega
 • Nota andlitsgrímu þar sem við á
 • Vinna í fjarvinnu, sé þess nokkur kostur

Hægt er að kynna sér reglurnar betur á vef stjórnarráðsins og á vefnum covid.is

 

Mynd með færslu
 Mynd: Landlæknisembættið og Almanna