Eldhúsin tómleg - Íhuga að senda jólahlaðborðin heim

30.10.2020 - 09:35
Veitingamenn og hótelstjórar velta nú vöngum yfir hvort jólahlaðborð séu dauðadæmd í ár. Formaður veitinganefndar Samtaka ferðaþjónustunnar, segir þau hafa gefið mikilvægar tekjur yfir vetrarmánuðina. Sjálfur ætlar hann að gera tilraun og senda jólahlaðborð út í bæ.

Á Hallormsstað er stærsta hótelið á Austurlandi og á þessum tíma ætti allt að vera á fullu í eldhúsinu. Eigandinn býr við óvissu og veltir fyrir sér hvort og þá hvað skuli panta í galtóman kælinn.

„Gegnumgangandi á Hallormsstað hafa verið svona 70-80 réttir og það hefur verið okkar aðalsmerki, alveg gríðarlega stórt jólahlaðborð og ofsalega margt undir, allskonar kjötréttir, þurrkaðir og reyktir og slíkt og fiskur og salöt og það verður ekkert núna. Þetta er bara eins og við skildum við þetta í haust. Nú er bara búið að vera allt lokað og ekkert að gera hér,“ segir Þráinn Lárusson, eigandi 701 hotels og formaður veitinganefndar SAF.

Jólahlaðborð hafa tryggt tekjur í nóvember og desember

Á hótelum úti á landi hefur oft verið lítið sem ekkert að gera á veturna en jólahlaðboðin bætt það upp. „Þau hafa oftast séð um að greiða stóran hluta af laununum yfir vetrarmánuðina þegar er engin innkoma hér nema bara rétt yfir jólahlaðborðin. Þetta hefur verið hryggjarstykkið í öllum rekstri hér á Hallormsstað yfir vetrarmánuðina. En nú er það bara búið,“ segir Þráinn.

Hann telur útilokað að halda jólahlaðborð á hótelinu jafnvel þótt fjöldatakmörk vegna COVID yrðu hækkuð. „Við erum búin að skoða þetta frá öllum hliðum og það er bara ekki framkvæmanlegt. Það er ekki nóg í raun og veru að fjöldatakmörkunin myndi fara í 100. Þá sitjum við uppi með þessi fjarlægðarmörk.“

Hann hvetur aðra veitingamenn til að hugsa út fyrir boxið og ætlar sjálfur að skipta um gír. Senda hlaðborð til minni hópa og í heimahús í staðinn. „Það snýst kannski ekkert endilega bara um að fyrirtækið fái tekjur. Reyndar er mjög gott að við getum þá að minnsta kosti veitt starfsfólkinu okkar vinnu. En þetta snýst líka að stórum hluta um það að menn geti haft einhverja skemmtun í þessu svartasta skammdegi,“ segir Þráinn Lárusson.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV