Einn til viðbótar kominn í öndunarvél

30.10.2020 - 17:58
COVID-ástand á Landakoti
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso - Ljósmynd
Einn sjúklingur til viðbótar hefur þurft að fara í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans í dag vegna COVID-19. 64 sjúklingar eru inniliggjandi, þar af fjórir á gjörgæslu og tveir í öndunarvél.

Þetta kemur fram í uppfærðum tölum frá viðbragðsstjórn og farsóttarnefnd spítalans nú á sjötta tímanum. Fyrir hádegi var einn í öndunarvél.

Smit sem tengjast hópsýkingunni á Landakoti eru orðin 134 og enn eru að greinast smit hjá sjúklingum og starfsfólki. 72 smit eru hjá starfsfólki og 62 sjúklingum á Landakoti, Reykjalundi og Sólvöllum á Eyrarbakka.