Aðeins lítill hluti gæludýra borgarinnar skráður

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV

Aðeins lítill hluti gæludýra borgarinnar skráður

30.10.2020 - 07:04

Höfundar

Skráningar gæludýra í Reykjavík eru í óvissu og aðeins um 2.000 hundar eru skráðir í borginni. Líklegt er talið að um 9.000 hundar gangi um götur borgarinnar samkvæmt skýrslu stýrihóps um þjónustu við gæludýr sem lögð var fram í umhverfis og heilbrigðisráði í vikunni.

Morgunblaðið fjallar um málið í morgun. Í skýrslunni kemur einnig fram að ketti sé að finna á um 30 prósentum heimila í borginni og að 40 prósent heimila í borginni haldi gæludýr. 

„Undanfarin misseri hafa fólki orðið sífellt ljósari þau jákvæðu áhrif sem gæludýr hafa á fólk og samfélag þess. Þannig hefur dýrahald verið að festa sig í sessi víða um heim sem lýðheilsuog tómstundamál. Gæludýrahald getur leitt til aukinnar hreyfingar, útiveru og einnig til aukinna samskipta við annað fólk. Þannig er gæludýraeign talin draga úr félagslegri einangrun og einmannaleika sem aftur bætir geðheilsu manna. Rannsóknir benda þá til þess að hundahald sérstaklega geti aukið á samskipti innan fjölskyldna og dregið úr áhættuhegðun.“ segir í inngangi skýrslunnar.

Þá kemur einnig fram að vegna fararldursins sé eftirspurn eftir hvolpum og kettlingum  í sögulegu hámarki. Í skýrslunni segir að umfang gæludýrahalds sé hins vegar óljóst og skráningar séu ófullnægjandi.

„Hlutfall skráðra hunda hefur líklega aldrei verið lægra í borginni og fer lækkandi á meðan fjöldi hunda í borginni hefur að mati fulltrúa hagsmunasamtaka aukist mikið á undanförnum árum. Það liggur því fyrir að borgin þarf að huga að nýrri nálgun í dýramálum, þjónustu við gæludýraeigendur, aukinni sátt um dýrahald og stuðning við velferð dýra. Dýrahald er augljóslega mikilvægur þáttur í nútíma borgarsamfélagi og flest bendir til þess að mikilvægi þess fari vaxandi.“ segir í skýrslunni.

Megintillögur stýrihópsins ganga út á að öll málefni dýra í borginni verði sameinuð undir einum hatti með sérstakri einingu, Dýraþjónustu Reykjavíkur (DÝR) sem staðsett verði í Fjölskyldu og húsdýragarðinum . Áhersla verður lögð á að fjölga skráðum dýrum í borginni, lækka gjöld og einfalda skráningar. Þá verði þjónusta við skráð dýr og eigendur þeirra gerð sýnilegri, ferlar varðandi dýr í neyð útbúnir og stuðlað með aukinni fræðslu að ábyrgara dýrahaldi og bættu samfélagi dýra og manna í þéttbýli. Loks verði útbúinn sérstakur sjóður, helgaður dýravelferð, ætlaður félagasamtökum og öðrum þeim sem vinna að velferð dýra.

Tengdar fréttir

Norðurland

„Vonuðum að hann væri frekar dauður en særður“

Innlent

Hundar mjög gagnlegir í kórónuveirufaraldrinum

Myndlist

Íslenski fjárhundurinn fínasta fyrirsæta

Erlent

Íhuga að lögfesta hundagöngur