Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ýmist rok og rigning eða sól og blíða í dag

29.10.2020 - 06:25
Toppurinn á tré í hauslitum.
 Mynd: Stocksnap.io
Veðurstofan gerir ráð austan hvassviðri í dag, einkum sunnan og vestanlands. Gul viðvörun er í gildi á Suður og Suðausturlandi vegna hvassviðriss. Gera má ráð fyrir hvössum vindstrengjum við fjöll, til að mynda undir Eyjafjöllum, Mýrdalsjökli og í Öræfum.

Vindhviður geta náð allt að 35 metrum á sekúndu og því er varasamt að vera á ferðinni á þessum stöðum á ökutækjum sem taka á sig vind.

Á Norðurlandi er útlit fyrir blíðskaparveður fram yfir hádegi en að þykkni upp eftir hádegi. 

Fyrir landið allt er veðuspá svohljóðandi:

Austan 10-18 metrar á sekúndu, en 18-23 syðst. Víða slydda eða rigning með köflum, talsverð úrkoma um tíma á Suðausturlandi og Austfjörðum. Snýst í suðaustan 8-15 seinni partinn og dregur úr vætu, fyrst syðst en rofar til fyrir norðan með kvöldinu.

Austlæg átt, 10-18 metrar á sekúndu og rigning eða slydda með köflum á morgun, hvassast á annesjum fyrir norðan, en hægari suðlæg átt og léttir til fyrir norðan um kvöldið. Hiti 2 til 10 stig, mildast við suðurströndina.

Rigning framundan

Og útlit næstu daga er þannig að á má gera ráð fyrir sunnan og suðaustan 8-15 metrum á sekúndu, en norðaustan 5-10 á Vestfjörðum. Rigning víða um land, en styttir upp fyrir norðan síðdegis. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast syðst.

Á laugardag:
Suðlæg átt, 5-13 metrar á sekúndu og rigning með köflum, en líkur á vaxandi norðnátt með rigningu eða slyddu austanlands seinni partinn. Hiti 1 til 6 stig.

Á sunnudag:
Ákveðin norðvestlæg átt og rigning eða slydda með köflum, en hægara og bjartviðri syðra og heldur kólnar í veðri.

Á mánudag:
Stíf vestan- og suðvestanátt og skúrir eða slydduél, en þurrt suðaustantil. Hiti nærri frostmarki.

Á þriðjudag:
Líklega norðvestanátt með slyddu eða rigningu fyrir norðan, en bjartviðri syðra og svalt í veðri.

Á miðvikudag:
Búast má við vaxandi suðvestanátt með rigningu og hlýnandi veðri.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV