„Við fáum kusk í augun aftur og aftur“

Mynd: Hulda Jónsdóttir Tölgyes / Aðsend

„Við fáum kusk í augun aftur og aftur“

29.10.2020 - 13:40

Höfundar

Vinskapur þeirra Tinnu og Ylfings, þriggja ára leikskólafélaga, hefur vakið mikla athygli enda eru þau óaðskiljanleg. Þau hafa þó ekki hugmynd um hvað forfeður þeirra tengjast sterkum böndum en ef ekki væri fyrir ótrúlega aðstoð langafa Ylfings við tvítugan ungverskan flóttamann, langafa Tinnu, þá væri vinkona hans ekki einu sinni til.

Tinna Þor­steins­dótt­ir Tölgyes og Ylf­ing­ur Kristján eru sam­an á Waldorf­leik­skól­an­um Sól­stöf­um. Greint var frá merkilegum tengslum þeirra í Morgunblaðinu í vikunni. Móðir Tinnu, Hulda Jónsdóttir Tölgyes, kíkti í Mannlega þáttinn á Rás 1 og sagði frá krílunum og magnaðri forsögu þeirra. „Þau eru óaðskiljanleg,“ segir Hulda. „Þau eru alltaf tvö að bralla eitthvað saman og stundum þarf að hjálpa þeim að leyfa öðrum að vera með.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hulda Jónsdóttir Tölgyes - Aðsend
Foreldrarnir klökkna þegar þau sjá hve góðir vinir krakkarnir eru án þess að hafa hugmynd um forsöguna

Áttaði sig á tengslunum fyrir tilviljun

Vegna þess hve náin Tinna og Ylfingur eru kynntust foreldrar þeirra eins og oft vill verða. Það var sem fyrir tilviljun sem Hulda áttaði sig á stórmerkilegri tengingu sinni og móður Ylfings. „Ég var að grúska á Facebook og fyrir algjöra tilviljun sé ég mynd af móður Ylfings og manneskju með henni á mynd sem ég kannaðist við og vissi að tengdist Gunnlaugi Þórðarsyni sem tók á móti afa mínum og hjálpaði honum að flýja til Íslands árið 1956.“

Óttaðist um líf sitt í Ungverjalandi

Það var langafi Ylfings, Gunnlaugur, sem reyndist mikill örlagavaldur í lífi ungversks langafa Tinnu árið 1956. Langafi Tinnu, Miklós Tölgyes, var staddur í heimalandinu, tilneyddir til að vera í hernum og það voru að brjótast út óeirðir og uppreisn. Miklós óttaðist um líf sitt og tók þá ákvörðun í samráði við fjölskylduna að flýja. Hann ætlaði til Kanada en byrjaði ferðalagið í Vínarborg þar sem hann hitti Gunnlaug. „Ég hef heyrt söguna þannig frá ömmu og afa að það hafi ekki verið nein röð í Íslandsflugvélina,“ segir Hulda.

Hefði gert þetta aftur og aftur

Gunnlaugur var starfsmaður hjá Rauða krossinum og var ákveðinn í að sjá til þess að Ungverjarnir fengju vist hér á landi. „Hann segir sjálfur að hann hafi verið að plotta þetta. Hann sagði yfirvöldum að Rauði krossinn væri að hjálpa flóttafóli frá Ungverjalandi en svo sagði hann Rauða krossinum að yfirvöld væru til í þetta,“ segir Hulda. Og blessunarlega fyrir þau Tinnu og Ylfing tókst honum ætlunarverkið. „Hann virkilega ætlaði sér að gera þetta og hann segir í viðtölum að hann myndi aldrei hugsa sig um, hann hefði gert þetta aftur.“

Faðir Miklósar hafði látist þegar hann var ungur en móðir hans og systir urðu eftir í Ungverjalandi. Hann talaði litla sem enga ensku þegar hann hitti Gunnlaug en hann hafði lokið tveimur árum í háskólanum í vélarverkfræði og kunni því einhverja latínu. „Þeir gátu því einhvern veginn hjálpast að við að skilja hvor annan í gegnum latnesk orð,“ segir Hulda.

Ættbogi sem aldrei hefði orðið til

Það var engin áfallameðferð í boði fyrir flóttamennina og ekkert íslenskunámskeið svo hinn tvítugi Miklós þurfti að prófa sig áfram. Hann segir að Íslendingar hafi hins vegar tekið honum opnum örmum og fékk hann aðstoð við að finna sér vinnu. En hér á landi þurfti hann að taka upp íslenskt nafn samkvæmt lögum og fékk hann því nafnið Mikael Fransson. Fjölskyldan ákvað hins vegar síðar að taka upp ættarnafnið hans. Miklós starfaði við að setja upp símastaura en fór svo að vinna sem útstillingamaður og auglýsingateiknari. „Hann var mikill listamaður og hefur málað mikið,“ segir Hulda um afa sinn. Hann kynntist ömmu Huldu, Kristbjörgu Birgis, og eiga þau tvær dætur og bæði barnabörn og barnabarnabörn. Þar er ættbogi sem ekki hefði orðið til ef Gunnlaugur hefði ekki náð Ungverjunum til Íslands.

Óvægin umræða um flóttafólk sem vill bara frið

Hulda segir fólk oft ekki átta sig á skelfilegum aðstæðum flóttafólks sem kemur til ókunnugra landa í framandi aðstæður og þarf að fóta sig í nýjum aðstæðum fjarri heimahögum. „Þessi umræða kemur oft illa við flóttafólk sem hefur sest hér að, borgað sína skatta og skilað til samfélagsins. Þau hafa glætt samfélagið nýjum litum og lífi,“ segir Hulda. „Þetta er harður dómur að setja á allt flóttafólk, að það sé komið til að spila á okkur þegar það hefur ekkert í höndunum.“

Því að fyrir þeim sé friður og öryggi oftast það eina sem þau óska sér. „Ég held þetta sé eitthvað sem við áttum okkur ekki á við Íslendingar. Við flest erum algjört forréttindafólk,“ segir Hulda. „En þetta er ekki mín baráttusaga heldur sagan hans afa og ég fæ að vera hér og lifa við öryggi út af þessu. Og Tinna og Ylfingur fá að vera vinir,“ segir hún.

Og síðan foreldrarnir áttuðu sig á þessum merkilegu tengslum hafa þau rætt málin fram og til baka og oft er stutt í tárin þegar þau fylgjast með grunlausu krílunum sem sjá vart annað en hvort annað. „Við höfum verið að fá kusk í augun aftur og aftur og okkur finnst þetta alveg ótrúlegt,“ segir Hulda að lokum.

Gunnar Hansson og Guðrún Gunnarsdóttir ræddu við Huldu Jónsdóttur Tölgyes í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Lítur ekki öðruvísi á lífið eftir heilaáföllin

Menningarefni

Fluttu sætar þýskar stelpur sem vinnuafl til Íslands