Vertar sigta út Kára fyrir ummæli hans um veitingastaði

Mynd með færslu
 Mynd:
Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði segja að aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins hafi gert það að verkum að rekstrarforsendur þeirra séu algjörlega brostnar. Þá hafi fólk verið hvatt til að forðast þessa staði og nefna samtökin þar Kára Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sérstaklega í því samhengi. Hann hafi ítrekað mælst til þess í fjölmiðlum að veitingahúsum verði lokað til að forðast útbreiðslu.

Samtökin benda á að Kári hafi gegnt stóru hlutverki í sóttvarnamálum og skimunum hér á landi. Þessi umræða hafi „eðlilega dregið verulega úr heimsóknum fólks á veitingastaði og jafnframt alið á ótta og hræðslu almennings við að stíga fæti inn á slíka staði.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn samtakanna við frumvarp fjármálaráðherra um fjárstuðnings til minna rekstraraðila vegna farsóttarinnar. 

Kári ræddi þetta mál síðast í Kastljósi í gærkvöld þar sem hann sagði nauðsynlegt að herða aðgerðir vegna þriðju bylgju faraldursins og það helst fyrir helgi.

Samtökin segja marga staði hafa barist í bökkum og reynt til þrautar að hafa opið en flestir ef ekki allir rekið sig með stórfelldu tapi við slíkar aðstæður. Fjölmörgum stöðum hafi nú þegar verið lokað og útséð með að margir þeirra muni ekki opna aftur.  Þá hafi orðið mikill samdráttur hjá fyrirtækjum sem sérhæfi sig í „take-away“ mat vegna breyttra neysluvenja á tímum COVID.

Í umsögninni kemur fram að fyrir COVID hafi veitingageirinn verið á mörkum þess að vera sjálfbær og nánast ekkert svigrúm hafi verið til að takast á við þær aðgerðir sem fylgt hafi faraldrinum. Þær fjöldatakmarkanir sem hafi verið við lýði jafngildi lokun hjá þeim stöðum sem byggi starfsemi sína á að taka móti gestum í sal. „ Enginn veitingastaður heldur það út svo dögum, vikum og jafnvel mánuðum skiptir að starfa við slíkar hömlur sem hafa leitt af sér stórfellda tekjuskerðingu og jafnvel algert tekjufall.“

Samtökin segja engin áhrifarík úrræði stjórnvalda standa til boða í dag og ljóst sé að bregðast þurfi hratt við til að forðast fjöldagjaldþrot og stórkostlegan atvinnumissi í greininni.  „Hafa má í huga að veitingastaðir landsins verða mikilvægur hluti af viðspyrnu efnahagslífsins, þegar landið opnar fyrir ferðamönnum á ný, að því gefnu að þau séu starfhæf þegar að því kemur.“

Umsögnina í heild má nálgast hér.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV