Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vél Icelandair lenti án heimildar eftir óhapp

29.10.2020 - 21:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar nú tvö atvik sem komu upp í Keflavík í október á síðasta ári. Þá rann sjúkraflugvél frá Bandaríkjunum út af flugbrautarenda og inn á öryggissvæði utan flugbrautarinnar. Þetta leiddi til þess að vélum var beint til Akureyrar. Flugstjóri vélar Icelandair, sem var að koma frá Seattle, lýsti hins vegar yfir neyðarástandi eftir 17 mínútna biðflug vegna eldsneytisstöðu og lenti án heimildar á annarri flugbraut.

Á vef rannsóknarnefndar kemur fram að rannsóknin varðandi sjúkraflugvélina beinist að hálkuvörnum á Keflvíkurflugvelli.

Á meðan unnið hafi verið að því að fjarlægja vélina hafi flugbrautinni verið lokað og við það lokaðist flugvöllurinn þar sem öðrum flugbrautum hafði ekki verið haldið opnum þessa nótt.

Rannsóknin á lendingu vélar Icelandair beinist meðal annars að eldsneytismálum flugfélagsins, undirbúningi flugsins viðbragðsgetu við opnun varaflugvalla sem og á kerfislægum misbresti.

Á vef nefndarinnar kemur fram að vélin hafi verið að koma frá Seattle og verið farin að nálgast Keflavíkurflugvöll þegar hann lokaðist vegna sjúkraflugvélarinnar. Vélin þurfti því að fara í biðflug.

17 mínútum seinna lýsti flugstjóri vélarinnar yfir neyðarástandi og sagðist verða að lenda á flugbraut vegna lágrar eldsneytisstöðu. Vélin lenti síðan á lokaðri flugbraut án heimildar sex mínútum síðar.

Mikill viðbúnaður var vegna lendingarinnar og fóru tveir bílar frá brunavörnum Suðurnesja upp á flugvöll og boð send út á fleiri viðbragðsaðila. Upplýsingafulltrúi Icelandair sagði á sínum tíma að vélin hefði verið með nægt eldsneyti til að fljúga til Akureyrar. Tvær vélar Icelandair sem voru að koma frá Newark og Washington lentu á Akureyri.

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV