Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Tvær hópuppsagnir um mánaðamótin

29.10.2020 - 17:05
Mynd með færslu
 Mynd: Vinnumálastofnun
Tvær hópuppsagnir taka gildi núna um mánaðamótin. Í annarri uppsögninni missa 35 manns vinnuna og 36 í hinni.

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir í samtali við Fréttastofu RÚV að fyrirtækin tvö sem nú segja upp fólki séu í veitingageiranum og verslun og þjónustu. Hún býst við að stofnunin fái fleiri tilkynningar um hópuppsagnir fyrir þessi mánaðamót.

Í september misstu 324 vinnuna í níu hópuppsögnum. Átta af þeim voru í ferðaþjónustu og ein í mannvirkjagerð. Í ágúst misstu 284 vinnu sína í fjórum hópuppsögnum og í júlí var 381 starfsmanni sagt upp í hópuppsögnum hjá fjórum fyrirtækjum.

Hópuppsögn er þegar minnst 10 manns er sagt upp í fyrirtæki með 21-99 starfsmenn. Í fyrirtækjum með 100-199 starfsmenn er það hópuppsögn ef 10% starfsmanna er sagt upp. Og í fyrirtækjum með 300 starfsmenn eða fleiri er hópuppsögn ef að minnsta kosti 30 manns er sagt upp.

 

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur