Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þrjár stórar hópsýkingar í rakningu—ein á Akureyri

29.10.2020 - 15:31
default
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Smitrakningateymi almannavarna er nú að rekja þrjár hópsýkingar sem hafa komið upp síðustu daga í þriðju bylgju faraldursins. Þetta er hópsmitið á Landakoti, hjá nemendum og starfsmönnum Ölduselsskóla og á Akureyri en smitrakningateymið hefur flokkað smitin þar sem eina hópsýkingu.

Samkvæmt vef Landspítala hafa nú 122 smit verið rakin til hópsýkingarinnar á Landakoti. Þetta eru 62 starfsmenn og 60 sjúklingar.  Á vef spítalans kemur fram að enn séu að greinast smit hjá starfsfólki og sjúklingum sem voru útsettir fyrir smiti á Landakoti.

44 smit hafa verið tengd við Ölduselsskóla; sjö starfsmenn, 23 nemendur og fjórtán afleidd smit. Skólanum hefur verið skipt niður í fleiri hólf en krafist er og nemendur fá mat inn í stofur þar sem matsalnum hefur verið lokað. Á unglingastigi gildir sú regla að aðeins einn árgangur fer í frímínútur í einu. 

Í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru nú 64 í einangrun og 231 í sóttkví, flestir á Akureyri eða 49. Í gær greindust fjórtán með veiruna en ekki tókst að fljúga með sýnin suður og því þurfti að keyra með þau. 

 Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra, segir smitrakningateymið líta á smitin á Norðurlandi sem eina hópsýkingu. Á sjötta tug starfsmanna vinna nú við að rekja smit.   

Hermann Karlsson í aðgerðarstjórn almannavarna á Norðurlandi eystra segir að smitin á Akureyri megi að einhverju leyti rekja til samkvæmis og jarðarfarar. „Og sumir tengjast inn í hvoru tveggja.“  Þá hafi smit einnig verið að koma upp hjá íþróttafélagi og svo stök smit hér og þar. „En í augnablikinu eru þetta jarðarförin, samkvæmið og íþróttafélagið.“

Fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar að töluverður fjöldi hafi verið í sóttkví við greiningu en margir hafi verið komnir nýlega í sóttkví.

Í öllum þessum hópsýkingum er sami veirustofn eða hin svokallaða „bláa veira“ sem greindist fyrst í tveimur frönskum ferðamönnum um miðjan ágúst. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í Kastljósi í gær að þetta veiruafbrigði virtist óvanalega smitandi og undir það tók Alma Möller, landlæknir. Kári benti á að þetta veiruafbrigði hefði ekki fundist á Bretlandi fyrir fjórum til fimm vikum en væri nú 70 prósent smita.

Leiðrétt: Sagt var að smitin á Akureyri væru 31 en þau eru 49

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV