Þórólfur leggur til hertar aðgerðir við ráðherra

29.10.2020 - 11:11
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekkert svigrúm til að slaka á aðgerðum innanlands vegna kórónuveirufaraldursins. Hann ætlar að senda minnisblað til heilbrigðisráðherra síðar í dag og leggja til að herða aðgerðir enn frekar. Útfærsla einstakra tillagna er enn í smíðum. Hann telur nú rétt að samræma aðgerðir fyrir allt landið á ný, en harðari aðgerðir hafa verið í gildi á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þórólfur sagði að hertar aðgerðir þurfi ekki að standa lengur en í tvær til þrjár vikur, ef þróunin verður hagstæð. Að því loknu er svo ákveðin áætlun tilbúin hvernig slakað verður á aðgerðum.

Alls hefur tekist að rekja 122 smit til hópsýkingar á Landakoti, en 62 starfsmenn og 60 sjúklingar hafa smitast. Þórólfur sagði að óbein smit séu einnig rúmlega tuttugu og það séu áhyggjur af því að þau smit séu farin að dreifast út í samfélagið

44 tilfelli hafa greinst sem tengjast Ölduselsskóla í Reykjavík. 23 nemendur og sjö starfsmenn hafa smitast en hin 14 smitin tengjast einstaklingum í skólanum. Þá hafa litlar hópsýkingar tengst víða sem tengjast veisluhöldum, vinahópum og vinnustöðum. Þórólfur segir að það sýni að við séum ekki að ná tökum á ástandinu.

Raðgreining bendir til að við séum að kljást við sömu veiru og undanfarið og ekki bólar á öðrum veirustofni, sem betur fer að sögn Þórólfs.

Þórólfur sagði að enn væri langt í land, en mikilvægt væri að standa saman. Staðan væri erfið þangað til öruggt bóluefni væri komið fram.

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir

Bendir til að þessi veira sé meira smitandi

Alma Möller landlæknir sagði að álagið væri farið að aukast fyrir norðan. Kallað verður eftir því að Sjúkrahúsið á Akureyri upplýsi um stöðuna hjá sér vegna þessa, en staðan þar var góð í byrjun vikunnar. 

400 bakverðir hafa skráð sig til starfa. Alma segir að heilbrigðisstofnanir hafi aðgang að þeirri sveit og nálgast bakverðina eins og með aðrar ráðningar séu að ræða.

Alma sagði að þetta afbrigði veirunnar gæti verið meira smitandi en fyrri veirustofnar. Raðgreiningar erlendis frá benda einnig í þá átt. Hún ítrekaði að þess vegna þurfi að skerpa á smitvörnum, standa saman og leggja okkar að mörkum. 

Hún hvatti fólk til að þrengja sinn innsta hring á meðan þessi staða gengi yfir.