Tæma andapollinn í síðasta sinn

29.10.2020 - 08:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Norðurhluti Árbæjarlóns, andapollurinn svokallaði fyrir ofan stífluna í Elliðaárdal í Reykjavík, verður tæmdur klukkan níu í dag og er þetta í síðasta skipti sem það gerist. Ákveðið hefur verið að safna ekki vatni í lónið framar eins og gert hefur verið um áratuga skeið. Nú á að koma á náttúrulega rennsli í gegnum stílfuna.

Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að ekki sé lengur þörf á að safna vatni í lón þar sem Elliðaárstöð er ekki lengur í rekstri. „Þegar er ekki verið að framleiða rafmagn aftur þá sjáum við okkur leik á borði, að það sé hægt að færa árnar sem næst náttúrulegri mynd áður en áin var virkjuð.“

Tæma þurfti lónið á hverju vori til að hleypa löxum upp í ána. Sú tæming hafði slæm áhrif á lífríkið. Set sem safnaðist í lónið yfir veturinn streymdi niður árnar. „Þá er svo mikil drulla sem fer niður árnar og það minnkar súrefnismagnið í ánni. Það er ekki gott fyrir lífríki sem þarf á súrefni að halda. Sem betur hefur það yfirleitt staðið stutta stund en við teljum ekki ástæðu til að halda þessu áfram,“ segir Hólmfríður.