Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Leggur áherslu á jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Heilbrigðisráðherra segir margt hafa verið gert til þess að jafna aðgengi fólks að sérgreinalæknum. Kostnaður fólks á landsbyggðinni annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar við að sækja sér heilbrigðisþjónustu hafi þó ekki verið jafnaður að fullu.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra segir eitt af hennar forgangsmálum síðan hún tók við embætti 2017 hafa verið að tryggja jafnt aðgengi að þjónustu sérgreinlækna. Bæði eftir búsetu og efnahag. Hvað búsetuna varði sé fyrst og fremst búið að bæta heilbrigðislöggjöfina, gera skýrara hver geri hvað. 

Betur má ef duga skal

Þá sé verið að styrkja fjarheilbrigðisþjónustu og hvetja og styrkja heilbrigðisstofnanir til samstarfs. Hún leggi áherslu á í nýjum samningum Sjúkratrygginga Íslands við sérgreinalækna að gert sé ráð fyrir því að læknum sé skylt að sinna öðrum svæðum en nærumhverfi sínu. Í mörgum atriðum hafi verið reynt að tryggja betra aðgengi. „En betur má ef duga skal og við höldum þessu verkefni mjög opnu,“ segir Svandís. 

Kostnaður ekki verið jafnaður að fullu

Sjúkratryggingar Íslands endurgreiða fólki ferðakostnað fyrir tvær ferðir vegna heilbrigðisþjónustu á ári. Þær bæta ekki fjarveru frá vinnu eða uppihald, svo kostnaður fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu getur verið töluverður. En hvers vegna raunverulegur kostnaður fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu ekki endurgreiddur?

„Við höfum verið að auka þessa endurgreiðslu og þetta er eitt af því sem ég hef lagt áherslu á í minni tíð. Svo hefur auðvitað skipt rosalegu máli að fólk getur verið á sjúkrahóteli en þarf ekki að vera ýmist hjá ættingjum eða í húsnæði sem er á vettvangi ýmiskonar sjúklingasamtaka eða annarra aðila. Þannig við erum að stíga þar skref til þess að auka jöfnuð en þessi útgjalda munur eða kostnaðarmunur sem er á því að vera utan af landi eða nálægt hér á höfuðborgarsvæðinu hann hefur ekki verið jafnaður að fullu það er rétt.“ segir Svandís.