Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Leggja til að borgin rukki fyrir rafbílahleðslur

29.10.2020 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Til skoðunar er að hefja gjaldtöku fyrir hleðslu rafbíla á hleðslustöðvum sem Reykjavíkurborg rekur í miðborginni. Ekki liggur fyrir hversu mikið það myndi kosta, en ástæðan er meðal annars sú að hingað til hefur borgin verið að bjóða gjaldfría þjónustu sem þarf að greiða fyrir hjá ýmsum fyrirtækjum.

Tillaga þessa efnis var lögð fram á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur í gær. Í greinargerð með tillögunni segir að hleðslustöðvarnar hafi verið settar upp árið 2018 með styrk frá Orkusjóði og hafi þeim verið ætlað að örva orkuskipti í samgöngum. Þá hafi ekki verið neinar hleðslustöðvar í eigu einkaaðila í miðborginni og því hafi verið ákveðið að þjónustan yrði gjaldfrjáls.

Nú hafi slíkum stöðvum fjölgað og borgin hafi boðið út rekstur hleðslustöðva á 32 stöðum innan borgarmarkanna þar sem gert sé ráð fyrir gjaldheimtu. Því sé tímabært að hefja gjaldtöku fyrir hleðslu rafbíla í miðborginni.

Í greinargerðinni eru nokkrar gjaldtökuleiðir nefndar, til dæmis að greitt yrði fyrir hverja kílóvattstund, fyrir þann tíma sem bíllinn er í hleðslu eða að farin yrði áskrifarleið. Lagt er til að samgönguskrifstofa borgarinnar útfæri gjaldskrána.