Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hádegisfréttir: Ekkert svigrúm til að slaka á aðgerðum

29.10.2020 - 12:10
Sóttvarnalæknir segir ekkert svigrúm til að slaka á aðgerðum innanlands vegna kórónuveirufaraldursins. Hann ætlar að senda minnisblað til heilbrigðisráðherra síðar í dag og leggja til að herða aðgerðir enn frekar. Um 140 smit tengjast Landakoti og rúmlega 40 Ölduselsskóla.

Þrír eru látnir eftir hryðjuverkaárás í Nice í Frakklandi í morgun. Maður vopnaður hnífi réðst að vegfarendum fyrir utan kirkju í borginni. Hinna látnu var minnst á franska þinginu þegar fréttir af atburðinum bárust.

Maðurinn sem leitað var að í Stafafellsfjöllum frá því í gærkvöld er fundinn heill á húfi.   Hann er nú á leið til byggða með björgunarsveitarmönnum

Heilbrigðisráðherra segir endurgreiðslur ferðakostnaðar vegna heilbrigðisþjónustu hafa aukist síðustu ár. Enn er þó kostnaðarsamara fyrir fólk utan af landi heldur en á höfuðborgarsvæðinu að sækja sér heilbrigðisþjónustu.

Byggðarráð Skagafjarðar skorar á samgönguráðherra að hefja undirbúning að jarðgöngum á milli Fljóta og Siglufjarðar. Núverandi vegur sé óboðlegur, þar hafi jarðsig, grjóthrun og jarðskjálftar haft mikil áhrif. 

Vel gekk að koma togaranum Drangi á flot í morgun. Skipið sökk við bryggju á Stöðvarfirði á sunnudagsmorgun.

Árbæjarlón í Reykjavík var tæmt í síðasta skipti í morgun. Nú verður hætt að safna vatni í lónið og komið á náttúrulegu rennsli í gegnum stífluna.

 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV