Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Grunur um fjárdrátt í Skálatúni

29.10.2020 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: Oddur Ben - wikimedia commons
Starfsmaður Skálatúns í Mosfellsbæ er grunaður um að hafa dregið sér fé úr rekstri heimilsins. Starfsmaðurinn starfaði sem launafulltrúi og bókari á heimilinu. Grunur um fjárdrátt kviknaði í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar í sumar.

Þetta staðfestir Þórey Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Skálatúns. Skálatún er heimili um 40 einstaklinga með þroskahömlun. Þar er einnig rekin dagþjónusta svo sem vinnustofur, þjálfun og afþreying fyrir þroskahamlaða. Reksturinn er samkvæmt þjónustusamningi við Mosfellsbæ.

Í sumar tók Þórey við sem framkvæmdastjóri Skálatúns og var henni falið að fara yfir rekstur heimilisins. Fljótlega vaknaði grunur um að ekki væri allt með felldu. Áður en málið fer í ákæruferli fer fram frumrannsókn innan Skálatúns. Það er gert til að ná utan um umfang og eðli málsins. 

Hún segist ekki geta sagt til um hversu miklar upphæðir starfsmaðurinn er grunaður um að hafa dregið sér. Hann hafi farið í leyfi í september í kjölfar athugunarinnar. Hún segist ekki geta svarað því hvort að ákæra verði gefin út. Það verði að koma í ljós. Fyrst þurfi frumathugun að fara fram áður en næstu skref verða ákveðin um hvort að málið fari inn á borð efnahagsbrotadeildar lögreglunnar og í ákæruferli.  Hún tekur fram að ekki sé grunur um fjárdrátt frá íbúum heimilisins, aðeins úr rekstri Skálatúns.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV