Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gæti kynnt aðgerðir á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Stefnt er að því að heilbrigðisráðherra geti lagt eitthvað fram til kynningar á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun varðandi hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu. Minnisblað Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, kom síðdegis í dag í heilbrigðisráðuneytið.

Ríkisstjórnin kemur saman til fundar á morgun eins og venjan er. 

Yfirleitt hefur sá háttur verið hafður á í kórónuveirufaraldrinum að Þórólfur hefur sent minnisblað til ráðherra með tillögum sínum. Minnisblaðið hefur síðan verið kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar og ráðuneytið síðan gefið gefið út nýja reglugerð um hvað má og hvað má ekki.

Þórólfur sagði hins vegar á upplýsingafundi í dag að hann vonaðist til að hægt væri að láta nýja reglugerð taka gildi sem allra fyrst. Og tók þar undir með Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sem sagði í Kastljósi í gærkvöld að nauðsynlegt væri að aðgerðirnar tækju gildi fyrir helgi.

Ekki er vitað hvað felst í hertum aðgerðum en Þórólfur lét að því liggja að mögulega yrðu enn harðari samkomutakmarkanir en nú eru. Nú mega 20 koma saman. Hann sagði jafnframt að þessar aðgerðir þyrftu ekki að standa lengur en í tvær til þrjár vikur og að til væri ákveðin áætlun um hvernig ætti að slaka á.  Búist er við að tillögurnar nái til alls landsins.

Alls er nú verið að rekja þrjár stórar hópsýkingar; eina á Landakoti, aðra í Ölduselsskóla og sú þriðja er Akureyri en öll smitin þar hafa verið flokkuð sem ein hópsýking. 122 smit hafa verið rakin til Landakots og 44 til Ölduselsskóla. 14 greindust með veiruna á Akureyri í gær.

Þórólfur varaði við því á fundinum í morgun að enn væri langt í land, en mikilvægt væri að standa saman. Staðan yrði erfið þar til öruggt bóluefni væri komið fram

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV