Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fresta um 110 valkvæðum aðgerðum hvern dag

Mynd: Skjáskot / RÚV
Um og yfir 110 valkvæðum aðgerðum er frestað á dag hjá fjórum stærstu heilbrigðisfyrirtækjum og stofnunum landsins. Yfirlæknir hjartalækninga segir að ef þriðja bylgjan dregst á langinn lengist biðlistar samhliða.

Ein til þrjár hjartaaðgerðir í stað hátt í tíu

Vegna neyðarstigs Landspítala er öllum heilbrigðisstofnunum gert að fresta svokölluðum valkvæðum aðgerðum. Aðeins er heimilt að gera minniháttar aðgerðir á vakandi sjúklingum. Þetta á við bæði innan og utan opinbera kerfisins til 15. nóvember samkvæmt gildandi reglugerð.

„Venjulega gerum við á milli fimm til tíu valkvæðar aðgerðir á dag á hjartaþræðingarstofum. Þessa viku erum við að sjá kannski eina til þrjár á dag, þannig þetta eru talsvert færri,“ segir Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala. 

„Gengur ekki“ að fresta þræðingum

Búið er að fresta innköllun í hjartaþræðingar, brennsluaðgerðir vegna hjartsláttatruflana og ísetningum gangráðs. „Alvarlegra tel ég að þegar er verið að fresta þræðingum og ómunum. Það gengur ekki að mínu viti það verður að gera einhverjar ráðstafanir, fólk sem er á biðlista er ekki þarna út að einhverju heldur er eitthvað að gerast,“ segir Sveinn Guðmundsson formaður Hjartaheilla. 

„Við höfum góða yfirsýn yfir biðlista og erum að meta hverjir eru með óstöðug einkenni og þurfa að koma inn þrátt fyrir þessi tilmæli,“ segir Davíð jafnframt.

Biðlistar gætu lengst 

Á Landspítala er að meðaltali um 60-65 aðgerðum frestað á dag. Ekki er talið öruggt að vísa aðgerðum þaðan á önnur sjúkrahús eða til einkageirans þar sem Landspítali þarf að grípa inn í ef eitthvað fer úrskeiðis. Sjúkrahúsið á Akureyri er varasjúkrahús Landspítala og þarf að hafa rými ef nauðsyn krefur. Þar er þremur til átta aðgerðum frestað á dag.

Á Klíníkinni eru um 10-15 aðgerðum frestað á dag, það er efnaskiptaaðgerðum eða offituaðgerðum, liðskiptaaðgerðum og brjóstaaðgerðum og lýtaaðgerðum.  Og í Orkuhúsinu eru hátt í 30 aðgerðir á dag í Orkuhúsinu; þar sem eru framkvæmdar bæklunaraðgerðir. 

Margir hafi áhyggjur

„Við vonumst til þess að þetta verði ekki mjög langt og við getum unnið þetta upp á tiltölulega stuttum tíma. En ef þetta dregst verulega á langinn þá getur þetta haft þau áhrif að biðlistar lengist,“ segir Davíð.

Tugir haft samband við Hjartaheill og hafa áhyggjur af ástandinu. „Okkur er sagt það að á biðlistunum getur fólk dáið ótímabærum dauðdaga og það er mjög slæmt. Það er sagt í fræðinni að á biðlistum deyja 13-14% ef biðlisti er langur,“ segir Sveinn.